Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir er 25 ára fædd og uppalin í Úkraínu. Hún flutti til Íslands 11 ára gömul og hefur búið í Reykjavík síðan. Síðastliðið ár hefur hún verið búsett í Flórens á Ítalíu. Var hún að útskrifast nú á dögunum með mastersgráðu í Fashion Brand Management og er því núna að slaka á þar sem síðustu mánuðir hafa einkennst af miklu álagi. Segist hún hins vegar eiga frekar erfitt með að gera ekki neitt svo hún mun vinda sér aftur í einhver verkefni, atvinnuleit og ferðalög sem fyrst.
Viktoría útskrifaðist með mastersgráðu í Fashion Brand Management frá Polimoda í Flórens. Polimoda er í 7 sæti yfir bestu tískuskóla í heimi í Graduate Fashion Business and Management samkvæmt Business of Fashion. Þetta er 9 mánaða nám sem hún segir hafa reynt mikið á hugmyndaflæði og sköpunargáfu.
„Lokaverkefnið snérist um að búa til bók með tillögu um rebranding strategy fyrir tískuvörumerkið Chanel. Umfram hönnun á bók þurfti ég að hafa myndatöku þar sem hugmyndin var kynnt ásamt því að taka upp myndband fyrir lokakynninguna. Þannig að maður var að vinna bæði í viðskiptahugmyndinni og sjónrænnu kynningunni á verkefninu. Ég gerði communication strategy sem samanstóð af markaðsherferð og nýrri aðferð við tískusýningar sem myndi koma í stað fyrir hefðbundið catwalk“.
„Ég fékk þann heiður og miklu áskorun að búa til nýja stefnu fyrir Chanel. Það kom mér á óvart þegar kennarinn bauð mér að taka það, enda er þetta sögulegt merki sem er nánast ósnertanlegt. Þetta var stuttu eftir að Karl Lagerfeld féll frá og því var tilvalið tækifæri að bjóða nýja stefnu. Chanel mun þó líklega halda sínu striki áfram í bili, samkvæmt aðilum fyrirtækisins sem ég hafði samband við“.
Viktoría hefur haft áhuga á tísku svo lengi sem hún man. „Ég gaf mér aldrei tíma í að sinna þessari skapandi hlið af mér, sem ég sé eftir núna. Eftir BS í viðskiptafræði ákvað ég að blanda menntuninni við það sem ég hef ástríðu fyrir og því valdi ég að fara í tískugeirann“.
Hvað ætlar Viktoría að gera það sem eftir er af sumri ?
,,Ég naut la dolce vita hér í Toscana þangað til í júlí þegar ég kom heim til Íslands. Heima ætla ég að vera með fjölskyldunni, ferðast um landið og kíkja á Þjóðhátíð í Eyjum. Sumarið mun síðan enda í Líbanon í brúðkaupi hjá bestu vinkonu minni’’.
Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað þau hafa gert í sumar og hvað planið sé þar til sumri lýkur. – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.