„Ég nota bænir mikið þegar ég veit ekki hvað er best að gera eða hef áhyggjur“

„Ég nota bænir mikið þegar ég veit ekki hvað er best að gera eða hef áhyggjur. Bara nokkur orð, bið um hjálp, blessun og leiðsögn,“ segir Ebba Guðný Guðmundsdóttir, fjölmiðlakona og heilsumatgæðingur í samtali við Viljann.

Hún bendir á að margir telji að vandamál og lausnir hversdagsins búi innra með okkur og vandamálin geti eyðilagt fyrir okkur daginn. Stór vandamál geti hreinlega lamað okkur af vonleysi og kvíða. Slæmt sé að lenda í slíkum aðstæðum og öll séum við þess vegna að leita að innri ró, einhvers konar heilun.

Góða grein um þetta megi finna á DailyOm, þar sem fram komi að bænin eigi við á slíkum stundum, hún eigi raunar alltaf við en komi sér einkar vel þegar við erum yfirspennt, kvíðin eða stressuð. Þegar okkur finnst sem við ráðum ekki við hlutina. Þá er gott að biðja um hjálp.

„Bæninni hefur verið lýst sem tungumáli sálarinnar“, segir Ebba Guðný ennfremur og finnst hún alltaf fá hjálp þegar hún biður um hana.