Eimreiðarhópurinn: Litla Íslandi breytt í efnahagslegt stórveldi

Hugleiðingu dagsins á dr. Jón Óttar Ragnarsson*, frumkvöðull í næringarfræði og stofnandi og sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 á árum áður, sem bregst á fésbókinni við umræðum um svonefndan Eimreiðarhóp í tilefni af nýrri bók sem skrifuð hefur verið um þann félagsskap.

Gefum Jóni Óttari orðið:

„Ég þakka nokkrum öfgafullum sósíalistum fyrir að minna Íslendinga á EIMREIÐINA sem ég ekki aðeins var tengdur heldur STOFNAÐI (eitt af því besta sem ég hef áorkað í lífinu!), ásamt góðvini mínum Magnúsi Gunnarssyni, viðskiptafræðingi, þegar ég tók mér þriggja ára frí frá námi í byrjun 8nda áratugarins.

Þetta voru byltingartímar. Viðbjóður Víetnamstríðs Nixons var í hámarki. Meira að segja hinir dagfarsprúðu Verkfræðinemar MIT, þar á meðal ofanritaður, spígsporuðu um götur Cambridgeborgar með rauða borða á upphandleggnum.

Þegar heim kom hitti ég fyrir hóp snillinga sem voru jafnreiðir og ég, ekki síst fyrir þá sök að EFNAHAGSUNDUR Viðreisnarninnar voru um það bil að renna út í sandinn, enda skollin á veikburða VINSTRI STJÓRN! Kom hópurinn sér saman um að hittast vikulega í turnherbergi Hótel Borgar og ‘brainstorma’ um hvernig mætti rétta þjóðarskútuna við. Fengum við til liðs við okkur tvo af mest brilljant hagfræðingum Íslandssögunnar, þá Gunnar Tómasson og Jónas Haralz, auk lagaspekingsins Sigurðar Líndal o.fl., sem lögðu línurnar.

Allar götur frá því að ég hélt aftur utan í doktorsnám árið 1974 hef ég fylgst með afrekum Eimreiðarhópsins með vaxandi stolti úr fjarlægð. Ekki aðeins hefur hann afrekað ALLT sem okkur dreymdi um að gera (auk óskyldra afreka einstaklinga innan hópsins) heldur átti hann stóran þátt í að breyta litla Íslandi í það efnahagslega stórveldi og magnaða velferðarríki sem það er í dag!“

*Fyrirvari um tengsl: Jón Óttar er mágur ritstjóra Viljans og tengdasonur útgefandans.