Einn fremsti listamaður þjóðarinnar kvaddur

Tryggvi Ólafsson myndlistarmaður. 1940-2019.

Tryggvi Ólafs­son myndlistarmaður er borinn til grafar í dag. Hann fædd­ist í Nes­kaupstað 1. júní 1940 og lést á Drop­laug­ar­stöðum 3. janú­ar 2019.

For­eldr­ar hans voru Ólaf­ur Magnús­son skrif­stofumaður, f. 5. jan. 1907, d. 31. okt. 1982, frá Fos­sár­dal í Beruf­irði, og Sig­ríður Bjarna­dótt­ir hús­freyja, f. 25. mars 1905, d. 24. júlí 1957, frá Hraun­koti í Lóni. Bróðir Tryggva var Loft­ur tann­lækn­ir, f. 24. fe­brú­ar 1942, d. 17. nóv. 2005, kvænt­ur Hrafn­hildi Hösk­ulds­dótt­ur, f. 29. júlí 1942, d. 20. feb. 2012.

Tryggvi kvænt­ist 29. des­em­ber 1962 Gerði Sig­urðardótt­ur, f. 2. nóv­em­ber 1940. For­eldr­ar henn­ar voru Sig­urður B. Jóns­son, loft­skeytamaður í Reykja­vík, f. 29. maí 1913, d. 31. okt. 1995, og Guðríður Sig­urðardótt­ir hús­freyja, f. 13. mars 1913, d. 2. mars 1980. Börn Tryggva og Gerðar eru: 1) Gígja, f. 13. júlí 1964, gift Ara Matth­ías­syni, þau eiga þrjú börn. 2) Þránd­ur, f. 1. maí 1979, kvænt­ur Elísa­betu Hall­dórs­dótt­ur, þau eiga þrjú börn. Fyr­ir átti Gerður Stíg Steinþórs­son, f. 18. jan. 1960, sem Tryggvi gekk í föðurstað, í sam­búð með Sig­ur­laugu Arn­ar­dótt­ur og á hann fimm börn, að því er fram kemur í inngangi að minningargreinum um hann í Morgunblaðinu í dag.

Tryggvi varð stúd­ent frá MR 1960. Hann lærði við Mynd­lista- og handíðaskól­ann árin 1960-61 og síðan við Kon­ung­lega lista­há­skól­ann í Kaup­manna­höfn árin 1961-66. Tryggvi var í hópi þekkt­ustu og virt­ustu mynd­list­ar­manna þjóðar­inn­ar og voru verk hans í eigu fjöl­margra lista­safna á Íslandi og er­lend­is og var stíll hans auðþekkj­an­leg­ur.
Tryggvi var ridd­ari af Dann­e­brog, hand­hafi fálka­orðunn­ar og hlaut verðlaun Jóns Sig­urðsson­ar for­seta árið 2018.

Brautryðjandi popplistar á Íslandi

Í minningarorðum sem starfsfólk Gallerís Foldar ritar um Tryggva, segir meðal annars:

„Tryggvi Ólafsson var meðal merkustu listmálara íslensku þjóðarinnar. Hann var einn af brautryðjendum popplistar á Íslandi og stíll hans var auðþekkjanlegur. Hann var ástsæll listamaður og verk hans eftirsótt. Hann lét sér fátt um finnast hvað aðrir sögðu. Þótt stefnur og straumar breyttust hélt hann ávallt sínu striki. Tryggvi hélt ótal sýningar á verkum sínum, aðallega hérlendis og í Danmörku þar sem hann bjó og starfaði lungann úr ævinni.

Við í Fold nutum þess að hýsa nokkrar sýningar Tryggva og voru þær ávallt meðal best sóttu sýninga í galleríinu. Tryggvi Ólafsson fékk margar viðurkenningar fyrir störf sín og í heimabæ hans, Neskaupstað, hefur verið sett upp myndarlegt safn með verkum hans. Er það nánast einsdæmi hérlendis að sett hafi verið upp safn með verkum núlifandi listamanns.
Tryggvi Ólafsson var afskaplega vinsæll maður og skemmtilegur. Heimili þeirra Gerðar í Kaupmannahöfn stóð Íslendingum ávallt opið. Þangað komu vinir og ættingjar og margir fengu húsaskjól í lengri eða skemmri tíma. Oft mun hafa verið glatt á hjalla og sagði Tryggvi stundum skemmtilegar sögur af gestagangi á heimilinu.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ásamt Tryggva Ólafssyni, listmálara, við tvö verka Tryggva en hann gaf hverjum leik- og grunnaskóla tvær litógrafíur eftir sig.

Þegar þau hjón fluttu heim til Íslands hélt sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn veglega kveðjuveislu fyrir þau í sendiherrabústaðnum. Þangað komu fjölmargir vinir og kunningjar, bæði Íslendingar og Danir. Margir tóku til máls og kvöddu hjónin með miklum trega og þakklæti.“

Kvödd með viðhöfn í sundlauginni

Svavar Gestsson, fv. ráðherra var sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn og minnist Tryggva:

„Þegar Tryggvi og Gerður fluttu heim til Íslands voru þau kvödd með viðhöfn í sund­laug­inni. Þar voru fremstu djass­leik­ar­ar Dan­merk­ur und­ir for­ystu Hugo Rasmus­sens. Þau hjón, heiðurs­gest­irn­ir, gistu að sjálf­sögðu á Hót­el D’Angleter­re í þjóðhöfðingj­a­svít­unni. Minna mátti það ekki vera. „Those were the days“; einn góður út­rás­ar­vík­ing­ur hafði keypt hót­elið ný­lega og var al­deil­is til í að hleypa þeim Tryggva þar inn. Þetta var 27. sept­em­ber 2008; stutt í hrun sem var þó ekki al­veg komið. Svo fóru þau Gerður heim. Bjuggu vest­ur í bæ í verka­manna­bú­staðnum, reynd­ar í eina hús­inu sem ég tók að skóflu­stungu á átta ára ráðherra­ferli. Ég var á móti skóflu­stung­um, sá seinna að auðvitað hlaut ég að taka skóflu­stungu fyr­ir húsi þar sem Tryggvi og Gerður bjuggu. Örlög­in?

Heim­kom­inn fékk Tryggvi viður­kenn­ingu kennda við Jón Sig­urðsson fyr­ir það sem hann hafði lagt til sam­skipta Íslands og Dan­merk­ur. Það átti hann skilið; og svo kom sel­veste Dann­e­brog. Góðan dag­inn! Tryggvi varð aldrei Dani þó að hann byggi þar í fjóra ára­tugi rúma. Hann var aðallega Norðfirðing­ur. Þá opnuðust sögugátt­irn­ar hjá mín­um manni þegar það var talað um Nes­kaupstað; Bjarna, Lúðvík og Jó­hann­es. Og ekki síður Óla Magg föður Tryggva, sem var einn af leiðtog­um Alþýðuflokks­ins eystra. Þær sög­ur dugðu í næt­ur og daga, til dæm­is heila nótt í ör­her­bergi á Hót­el Absalon að vísu með þriggja pela flösku af koní­aki sem lá dauð um morg­un­inn.“