Tryggvi Ólafsson myndlistarmaður er borinn til grafar í dag. Hann fæddist í Neskaupstað 1. júní 1940 og lést á Droplaugarstöðum 3. janúar 2019.
Foreldrar hans voru Ólafur Magnússon skrifstofumaður, f. 5. jan. 1907, d. 31. okt. 1982, frá Fossárdal í Berufirði, og Sigríður Bjarnadóttir húsfreyja, f. 25. mars 1905, d. 24. júlí 1957, frá Hraunkoti í Lóni. Bróðir Tryggva var Loftur tannlæknir, f. 24. febrúar 1942, d. 17. nóv. 2005, kvæntur Hrafnhildi Höskuldsdóttur, f. 29. júlí 1942, d. 20. feb. 2012.
Tryggvi kvæntist 29. desember 1962 Gerði Sigurðardóttur, f. 2. nóvember 1940. Foreldrar hennar voru Sigurður B. Jónsson, loftskeytamaður í Reykjavík, f. 29. maí 1913, d. 31. okt. 1995, og Guðríður Sigurðardóttir húsfreyja, f. 13. mars 1913, d. 2. mars 1980. Börn Tryggva og Gerðar eru: 1) Gígja, f. 13. júlí 1964, gift Ara Matthíassyni, þau eiga þrjú börn. 2) Þrándur, f. 1. maí 1979, kvæntur Elísabetu Halldórsdóttur, þau eiga þrjú börn. Fyrir átti Gerður Stíg Steinþórsson, f. 18. jan. 1960, sem Tryggvi gekk í föðurstað, í sambúð með Sigurlaugu Arnardóttur og á hann fimm börn, að því er fram kemur í inngangi að minningargreinum um hann í Morgunblaðinu í dag.
Tryggvi varð stúdent frá MR 1960. Hann lærði við Myndlista- og handíðaskólann árin 1960-61 og síðan við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn árin 1961-66. Tryggvi var í hópi þekktustu og virtustu myndlistarmanna þjóðarinnar og voru verk hans í eigu fjölmargra listasafna á Íslandi og erlendis og var stíll hans auðþekkjanlegur.
Tryggvi var riddari af Dannebrog, handhafi fálkaorðunnar og hlaut verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2018.
Brautryðjandi popplistar á Íslandi
Í minningarorðum sem starfsfólk Gallerís Foldar ritar um Tryggva, segir meðal annars:
„Tryggvi Ólafsson var meðal merkustu listmálara íslensku þjóðarinnar. Hann var einn af brautryðjendum popplistar á Íslandi og stíll hans var auðþekkjanlegur. Hann var ástsæll listamaður og verk hans eftirsótt. Hann lét sér fátt um finnast hvað aðrir sögðu. Þótt stefnur og straumar breyttust hélt hann ávallt sínu striki. Tryggvi hélt ótal sýningar á verkum sínum, aðallega hérlendis og í Danmörku þar sem hann bjó og starfaði lungann úr ævinni.
Við í Fold nutum þess að hýsa nokkrar sýningar Tryggva og voru þær ávallt meðal best sóttu sýninga í galleríinu. Tryggvi Ólafsson fékk margar viðurkenningar fyrir störf sín og í heimabæ hans, Neskaupstað, hefur verið sett upp myndarlegt safn með verkum hans. Er það nánast einsdæmi hérlendis að sett hafi verið upp safn með verkum núlifandi listamanns.
Tryggvi Ólafsson var afskaplega vinsæll maður og skemmtilegur. Heimili þeirra Gerðar í Kaupmannahöfn stóð Íslendingum ávallt opið. Þangað komu vinir og ættingjar og margir fengu húsaskjól í lengri eða skemmri tíma. Oft mun hafa verið glatt á hjalla og sagði Tryggvi stundum skemmtilegar sögur af gestagangi á heimilinu.

Þegar þau hjón fluttu heim til Íslands hélt sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn veglega kveðjuveislu fyrir þau í sendiherrabústaðnum. Þangað komu fjölmargir vinir og kunningjar, bæði Íslendingar og Danir. Margir tóku til máls og kvöddu hjónin með miklum trega og þakklæti.“
Kvödd með viðhöfn í sundlauginni
Svavar Gestsson, fv. ráðherra var sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn og minnist Tryggva:
„Þegar Tryggvi og Gerður fluttu heim til Íslands voru þau kvödd með viðhöfn í sundlauginni. Þar voru fremstu djassleikarar Danmerkur undir forystu Hugo Rasmussens. Þau hjón, heiðursgestirnir, gistu að sjálfsögðu á Hótel D’Angleterre í þjóðhöfðingjasvítunni. Minna mátti það ekki vera. „Those were the days“; einn góður útrásarvíkingur hafði keypt hótelið nýlega og var aldeilis til í að hleypa þeim Tryggva þar inn. Þetta var 27. september 2008; stutt í hrun sem var þó ekki alveg komið. Svo fóru þau Gerður heim. Bjuggu vestur í bæ í verkamannabústaðnum, reyndar í eina húsinu sem ég tók að skóflustungu á átta ára ráðherraferli. Ég var á móti skóflustungum, sá seinna að auðvitað hlaut ég að taka skóflustungu fyrir húsi þar sem Tryggvi og Gerður bjuggu. Örlögin?
Heimkominn fékk Tryggvi viðurkenningu kennda við Jón Sigurðsson fyrir það sem hann hafði lagt til samskipta Íslands og Danmerkur. Það átti hann skilið; og svo kom selveste Dannebrog. Góðan daginn! Tryggvi varð aldrei Dani þó að hann byggi þar í fjóra áratugi rúma. Hann var aðallega Norðfirðingur. Þá opnuðust sögugáttirnar hjá mínum manni þegar það var talað um Neskaupstað; Bjarna, Lúðvík og Jóhannes. Og ekki síður Óla Magg föður Tryggva, sem var einn af leiðtogum Alþýðuflokksins eystra. Þær sögur dugðu í nætur og daga, til dæmis heila nótt í örherbergi á Hótel Absalon að vísu með þriggja pela flösku af koníaki sem lá dauð um morguninn.“