Guðmundur Óskarsson hefur verið ráðinn sem forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá VÍS. Helsta verkefni hans er að leiða sölu- og markaðsmál fyrirtækisins í gegnum stafrænar leiðir. Hann mun heyra undir Guðnýju Helgu Herbertsdóttur, framkvæmdastjóra Stafrænnar þróunar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, sem skráð er í Kauphöllina. Guðmundur er einn þekktasti markaðsmaður landsins og hefur komið víða við í íslensku viðskiptalífi.
Guðmundur starfaði hjá Icelandair um 14 ára skeið, lengst af sem framkvæmdastjóri og forstöðumaður sölu- og markaðssviðs. Hann var einnig forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Air Iceland Connect. Guðmundur er með BS- og BA-gráðu í viðskiptafræði og alþjóðasamskiptum frá Pennsylvania State University og diplómu frá University of Leipzig í Þýskalandi.