Einstakur maður

Jón greindi frá því í mynd­inni Karla­meini sem sýnd var í RÚV í fyrra að hann hefði greinst með langt gengið krabba­mein í blöðru­hálskirtli. / Skjáskot: RÚV.

Jón Sig­urðsson, fyrrverandi ritstjóri, rektor, seðlabanka­stjóri, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og viðskiptaráðherra sem lést í gær, 75 ára að aldri, var að mörgu leyti einstakur maður. Hann var ótrúlega frjór og afkastamikill; skapandi í hugsun og gegndi trúnaðarstörfum hvar sem hann var í mannlegu félagi. Hans er gott að minnast.

Ferill Jóns var einstakur á ýmsa lund. Hann tengdist Framsóknarflokknum snemma tryggðarböndum en sótti sér sífellt meiri menntun samfara ábyrgðarmiklum störfum. Hann var rektor Samvinnuskólans en sótti sér framhaldsgráður og um árabil var fátt í stefnu Framsóknarflokksins sem ekki var frá honum komið að einhverju leyti eða öllu. Maður samninga og málamiðlana var hann, sem kom sér vel í starfi formanns málefnanefndar flokksins.

Embætti seðlabankastjóra er svo ofarlega í íslenskum valdapíramída að þess eru fá dæmi að menn yfirgefi þann vettvang sjálfviljugir til ferðalaga á áhættumeiri slóðir. Engu að síður gerði Jón einmitt það. Hann sagði af sér sem seðlabankastjóri til þess að hasla sér loks sjálfur völl í pólitík og mér er í fersku minni hvernig það vildi til.

Halldór heitinn Ásgrímsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, var farinn að huga að eftirmanni sínum um miðjan fyrsta áratug aldarinnar. Það kom í hlut okkar Helga S. heitins Guðmundssonar að fara niður í Seðlabanka á fund Jóns og bera undir hann þetta undarlega erindi. Eins og jafnan við slík tilefni, varð Jón hugsi og setti í brýrnar, en svo féllst hann á þetta. Taldi hann bæði Framsóknarflokkinn og Halldór eiga það inni hjá sér að svara þessu kalli.

Þannig var Jón.

Þessi vinalegi og afburðaklári maður fann hins sig hins vegar ekki á eiginlegum heimavelli í hinu pólitíska ati. Hann var reyndar frábær ráðherra; afkastamikill og slyngur í samningum, en sem frambjóðandi leið honum hálfilla. Við sem sátum í nokkurs konar herráði með honum í kosningunum lögðum margt til eins og gengur, en hann svaraði því oft hreinskilnislega að hann vissi að þetta og hitt gæti verið pólitískt klókt eða til vinsælda fallið, en hann gæti bara ekki hugsað sér að gera þetta.

Og þar við sat. Jón féll af þingi sem oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík í kosningum. Er erfitt að finna jafn eftirminnilegt dæmi um mann sem átti þar jafn ríkt erindi án þess að ná takmarki sínu. Í bréfum sem hann sendi okkur samherjum sínum á þessum tíma eru raktar ýmsar ástæður fyrir þessu gengi, t.d. innanbúðarerjur í Framsóknarflokknum og valdabrölt annarra oddvita flokksins. Síðar verður sú saga sögð.

Jón var lengi einn æðsti maður Frímúrarareglunnar á Íslandi og forystumaður í mörgu öðru félagsstarfi, hann var Guðsmaður í besta skilningi þess orðs og alltaf að spekúlera, hvort sem var í ævafornum textum eða þrætumálum samtímans. Við sem áttum vináttu hans þekkjum öll að vakna að morgni með eitt eða fleiri tölvubréf frá honum þar sem staða þjóðmála er greind, lagðar til lausnir og fólki skipað til verka. Vinnudagurinn hjá Jóni hófst þegar aðrir steinsváfu. Hann elskaði konu sína og börn; var fjölskyldumaður mikill.

Jón var ættstór maður; fædd­ur í Kollaf­irði á Kjal­ar­nesi 23. ág­úst árið 1946. For­eldr­ar hans voru Sig­urður Ell­ert Ólason hæsta­rétt­ar­lögmaður og rík­is­lögmaður og Unn­ur Kol­beins­dótt­ir, kenn­ari og bóka­vörður.

Jón stundaði nám við Mennta­skól­ann í Reykja­vík en hann lauk þar stúd­entspófi árið 1966. Þaðan lá leiðin í ís­lensku og sagn­fræði í Há­skóla Íslands. Hann út­skrifaðist með BA-gráðu í þeim fög­um þrem­ur árum síðar.

Jón tók við starfi rit­stjóra Tím­ans árið 1978 og sinnti því til árs­ins 1981. Að því loknu varð hann skóla­stjóri Sam­vinnu­skól­ans á Bif­röst og síðar varð hann rektor skól­ans til árs­ins 1991. Árið 1988 út­skrifaðist hann með meist­ara­gráðu í mennt­un­ar­fræðum og kennslu­stjórn­un frá Col­umb­ia Pacific Uni­versity í San Rafa­el í Banda­ríkj­un­um. Hann út­skrifaðist með doktors­gráðu í sömu grein­um tveim­ur árum síðar. Árið 1993 út­skrifaðist hann svo úr MBA námi í rekstr­ar­hag­fræði og stjórn­un frá Nati­onal Uni­versity í San Diego í Banda­ríkj­un­um.

Frá ár­inu 2003 til árs­ins 2006 var Jón Seðlabanka­stjóri. Að því loknu tók hann við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra til árs­ins 2007. Þá var hann einnig formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins. Hann var 75 ára þegar hann lést, en undanfarið hafði hann glímt við langt gengið krabbamein í blöðruhálskirtli og rætt opinskátt þá reynslu sína frammi fyrir alþjóð.

Vinur er genginn, sem lengi verður minnst. Spor hans voru dýpri en flestra samtíðarmanna. Blessuð sé minning Jóns Sigurðssonar.

Björn Ingi er ritstjóri Viljans (bjorningi@viljinn.is)