Ekkert grín eða gaman að vera Íslendingur á Filippseyjum þessa dagana

Sigurður Ingi Pálsson er búsettur á Filippseyjum ásamt eiginkonu sinni og syni þeirra.

„Ég sé mig knúinn til að kveða mér hljóðs um Filippseyjamálið. Mér rennur blóðið til skyldunnar þar sem ég og mín fjölskylda eigum beinna hagsmuna að gæta sökum þessa nýjasta axarskafts íslenskra stjórnvalda.“

Þannig hefst færsla sem Sigurður Ingi Pálsson ritar á fésbókina, en óhætt er að segja að hún setji fíkniefnastríðið á Filippseyjum í annað ljós, en gert er reglulega í íslenskum fjölmiðlum eða vestrænum.

Sigurður Ingi segir ekkert grín eða mikið gaman að vera Íslendingur á Filippseyjum þessa dagana eftir að tillaga Íslands gegn Filippseyjum var samþykkt í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Segist hann reyna að breyta um umræðuefni hálf skömmustulegur ef spurt er hvaðan úr heiminum maður komi og tali sem minnst um það. Hann muni reyndar ekki eftir því fyrr á langri ævi að hafa nokkurntíma skammast sín fyrir að vera Íslendingur heldur þvert á móti verið stoltur af sínum uppruna en nú sé því miður svo komið að hann eiginlega hálf skammist sín. 

„Filippseyingar eru upp til hópa gott fólk og gestrisið sem hefur reynst mér einkar vel á meðan á dvöl minni hér hefur staðið. Hérna eru engin mannréttindabrot í gangi gagnvart almenningi, virkt lýðræði, tjáninga og skoðanafrelsi og enginn í fangelsi vegna pólitískra skoðana eins og tíðkaðist í valdatíð Marcosar fyrrum einræðisherra sem stjórnaði hér í fjölda ára með járnhnefa og herlögum þar sem mannréttindi voru fótum troðin eins og reyndar þekkist ennþá víða í heimi hér átölulaust nú um stundir svo sem í Kína td. Filippseyingar hafa ferðast um langan veg til framfara í mannréttindamálum síðan þá og Duterte núverandi forseti Filippseyja sem leiðir 108 milljón manna þjóð sína í þessu eiturlyfjastríði sem hér hefur geysað nýtur almennrar lýðhylli og hefur yfir 80% stuðning landsmanna sinna við að reyna að koma skikki á þessi vandamál sem eiturlyfjamafíurnar voru búnar að skapa hér í landi og þurfti nauðsynlega að ráðast til atlögu gegn. Spillingu er hér vissulega að finna eins og víðast annars staðar í heiminum og þarf nú ekki að leita út fyrir landsteina Íslands til að finna slíkt ef grannt er skoðað,“ segir hann.

Duterte forseti Filippseyja hefur ekki vandað íslenskum stjórnvöldum kveðjurnar.

Hann segir Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra vera að rugla saman tveimur óskildum hlutum, annars vegar réttlætanlegu stríði lögreglu og stjórnvalda gegn harðsvíruðum eiturlyfjabarónum og mafíum þeirra sem eru gráir fyrir járnum gegn lögreglunni vopnaðir AK47 hríðskotarifflum og handsprengjum og hafa vaðið uppi hér í landi allt of lengi ótruflaðir við sína iðju og svo hins vegar mannréttindabrotum gegn almenningi.

„Þetta mál er byggt á vanþekkingu á aðstæðum hérlendis og það er hreinlega út í hött að einu sinni bera þessa tvo hluti saman. Skoðum td. Mexíkó í samanburði og þær tugþúsundir manna sem þar falla í valinn árlega í samskonar styrjöld stjórnvalda gegn eiturlyfjaklíkum. Er einhver að rugla þeim átökum lögreglu við eitursala saman við mannréttindabrot? Ekki minnist ég þess,“ bætir hann við.

Maður líttu þér nær!

Sigurður Ingi kveðst vera hamingjusamlega giftur yndislegri filippeyskri konu og þau eigi saman 3ja ára gamlan son.

„Eftir þetta gönuhlaup landa minna hjá Sameinuðu þjóðunum veit ég ekki hvort okkur verður vært áfram hér í landi af þeim sökum. Tíminn einn mun leiða það í ljós en ef illa fer hvað er þá í boði fyrir okkur? Já það er nú það, ekki er konan mín neitt sérstaklega velkomin til Íslands eða vandamálalaust fyrir okkur vegna hennar stöðu sem útlendings að flytjast „heim“ ef við kysum eða neyddumst til að reyna þá leið. Sonur okkar skilst mér þó að myndi sennilega sleppa inní landið án teljandi vandræða enda hálfur Íslendingur en móðir hans og eiginkona mín ekki svo auðveldlega.

Maður hlýtur að spyrja sig hvort ekki er einhverskonar mannréttindabrot fólgið í því gagnvart mér sem lögráða, barnfæddum íslenskum ríkisborgara með óflekkað mannorð að geta ekki möglunarlaust flutt fjölskyldu mína til míns heimalands þótt eiginkonan sé af erlendu bergi brotin? Sonur okkar er velkominn en eiginkona mín, móðir hans sem ég er löglega giftur ekkert allt of velkomin. Skrítin mannréttindi það myndi nú einhver segja. Mér sýnist að við ættum að líta okkur aðeins nær áður en við byrjum að fordæma aðra fyrir mannréttindabrot og taka okkur aðeins saman í andlitinu sjálfir í skynhelginni áður en við stökkvum til í vanhugsuðu frumhlaupi til að dæma aðra.

„Maður líttu þér nær“ eru mín lokaorð til hæstvirts utanríkisráðherra Íslands og annarra þeirra er ábyrgð bera á þessu mjög svo furðulega og vanhugsaða máli,“ segir Sigurður Ingi ennfremur.