„Á undanförnu ári hefur mér þótt Samfylkingin sofna á verðinum í veigamiklum mannréttindamálum. Ég hef aldrei ætlast til þess að þau séu stærsta og eina málið, heldur einfaldlega að þau séu með. Í bylgju hinsegin hatursorðræðu og ofbeldis voru engin viðbrögð frá flokknum. Síðar var Arnþrúði Karlsdóttur, sem rekur útvarpsstöð sem básúnar hatursorðræðu gegn hinsegin fólki og innflytjendum, boðið að tala á fundi. „Við erum á leið út úr bergmálshellinum“ var viðkvæðið. Ég og fleira hinsegin fólk innan flokksins þurftum að útskýra að líf okkar og réttindi gætu aldrei verið til umræðu.“
Þetta skrifar Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir á fésbókina, þar sem hún tilkynnir að hún hafi sagt af sér varaþingmennsku fyrir Samfylkinguna og öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Ástæðan er breytt stefna Samfylkingarinnar í útlendingamálunum, sem Viljinn hefur skýrt frá, síðast með frétt í gærkvöldi af fundi flokksstjórnarinnar í Miðfirði.
„Myndirðu leyfa einhverjum að ausa fúkyrðum yfir maka þinn eða barnið þitt í matarboði og taka umræðuna? Að konan þín sé nú ekki barnaníðingur en þú berir virðingu fyrir ólíku sjónarmiði? Nei, þú myndir vísa manneskjunni út.
Það er vont að þurfa að útskýra að það að leyfa útvarpskonu sem hefur verið dæmd fyrir hatursorðræðu, að láta gamminn geysa, hefur áhrif á líf mitt, fjölskyldu minnar og alls annars hinsegin fólks. Það er vont að þurfa að opna sig upp að kviku til að reyna að fá fólk til að hlusta. Að lokum var hætt við fundinn, en kveðjurnar í kjölfarið voru ekki hlýjar.
Ég kom að því, ásamt fjölda fólks, að skrifa ályktun (sjá frétt Viljans) fyrir flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar sem fjallar um stöðu innflytjenda og umsækjanda um alþjóðlega vernd og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag. Ég komst því miður ekki á fundinn en tillagan var flutt af góðu flokksfólki.
Rót tillögunnar er aukin útlendingaandúð í íslensku samfélagi, í kjölfar mikillar hörku ríkisstjórnarinnar. Það er nauðsynlegt er að bregðast við og ávarpa þessa ógnvekjandi þróun. Enginn þáttur þessarar hóflegu ályktunar er í ósamræmi við stefnu flokksins og ummæli forystufólks. Það er hlutverk flokksstjórnar að álykta um málefni líðandi stundar og fjölmörg dæmi þess, t.d. þegar verkföll eru eða aðrar aðstæður í samfélaginu sem kalla á viðbrögð.
Ákveðið var að samþykkja ekki tillöguna heldur að vísa henni til lokaðs málefnahóps til umfjöllunar. Það getur verið eðlilegt að gera það undir ákveðnum kringumstæðum en í þennan hóp hafa aðeins ákveðnir flokksmenn fengið boð um þátttöku. Þetta eru vinnubrögð sem ég man ekki eftir á þeim áratug sem ég hef verið virk innan flokksins. Það sama er uppi á teningnum í öðrum málaflokkum þar sem stefnubreytingar sem unnar eru í lokuðum hópum sérfræðinga eru kynntar en eru ekki til umræðu.
Fyrir fundinn höfðu tæplega þrjátíu manns skrifað undir bréf til þingflokksins sem hvatti til þess að leggjast gegn hinum svokölluðu „lokuðu búsetuúrræðum“ og þrengja að rétti til fjölskyldusameininga, sem ríkisstjórnin boðar. Frumvarpið hefur verið gagnrýnt af 20 mannréttindasamtökum á Íslandi, en þingmenn flokksins hafa sagt opinberlega að þeir styðji meginmarkmið frumvarpsins. Það er mikið áhyggjuefni.
Þar að auki skrifuðum við Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi og fyrrum formaður Samtakanna 78 opið bréf, til að minna hjarta jafnaðarstefnunnar: mannréttindi. Í kjölfarið fengum við tvo fyrrum formenn flokksins upp á afturfæturnar og vorum beðnar um að halda okkur til hlés.
Ég hef verið með með hnút í maganum síðast liðið ár. Mannréttindi eru reipitog og Samfylkingin hefur látið sinn enda á jörðina. Afleiðingarnar verða miklar fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum.
Þetta er einn þáttur af mörgum sem valda því að ég þarf, eftir langan aðdraganda innan flokksins, að segja mig frá starfi Samfylkingarinnar. Þetta er erfið ákvörðun eftir að hafa lagt nótt við dag fyrir jafnaðarstefnuna, en hún er rétt. Ég mun því segja af mér varaþingmennsku og öðrum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn,“ bætir hún við.