Eliza Reid forsetafrú með glæpasögu á næsta ári: Dauði diplómatans

Eliza Reid var spyrill í höfundaspjalli í Hörpu, þar sem Hillary Clinton og Louise Penny sátu fyrir svörum.

Eliza Reid forsetafrú er með glæpasögu í smíðum sem kemur út á næsta ári. Er vinnuheitið Dauði diplómatans, eða Death of a Diplomat.

Þetta kom fram í lokaumræðum bókmenntahátíðarinnar Iceland Noir að viðstöddu fjölmenni í Hörpu í dag, þar sem Eliza Reid var í hlutverki spyrils andspænis þeim Hillary Clinton, fv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetafrú þar í landi á árunum 1998-2006 og kanadíska rithöfundinum Louise Penny sem skrifuðu saman metsölubókina State of Terror, alþjóðlega spennusögu um bandarískan utanríkisráðherra sem lendir í hringiðu flókinna viðburða á sviði alþjóðamála og hryðjuverkaógnar.

Eliza Jean Reid er enginn nýgræðingur í bókmenntaheiminum, þótt hún stígi nú sín fyrstu skref sem glæpasagnahöfundur. Hún er sagnfræðingur og annar af stofnendum Iceland Writers Retreat, árlegs móts rithöfunda sem koma hingað til að vinna að skriftum í litlum vinnuhópum og kynna sér bókmenntir Íslendinga.

Eliza Jean Reid forsetafrú og rithöfundur.

Í þessu hlutverki hefur hún verið virk í að koma íslenskum rithöfundum á framfæri og kynna íslenskar bókmenntir erlendis, einkum í Norður Ameríku. Eliza var í dómnefnd fyrir BC National Award for Canadian Non-Fiction 2018 en það eru ein þekktustu bókmenntaverðlaun Kanada.

Um tíma var Eliza ristjóri flugtímarits Icelandair og blaðamaður hjá Iceland Review og hún hefur birt greinar í Monocle, The Globe and Mail of ýmsum öðrum blöðum og tímaritum. Hún hefur áður sent frá sér bókina Sprakkar, sem fjallar um jafnrétti kynjanna og hvort Ísland sé fyrirheitna landið fyrir allar konur og hefur sú bók komið út erlendis.