Óhætt er að segja að ákveðin bylting hafi átt sér stað árið 2018 þegar ný tegund endursölumarkaðar, Barnaloppan, opnaði með það að leiðarljósi að breyta kauphegðun neytenda með hag umhverfisins að leiðarljósi. Barnaloppan var því fyrsta sinnar tegundar af endursölumarkaði hérlendis sem einkennist af því að þjónusta bæði kaupendur og seljendur með notuðum fatnaði og fylgihlutum.
Með þessum hætti geta neytendur selt notaðar vörur sér til hagnaðar eða keypt á lækkuðu verði. Fleiri endursölumarkaðir fylgdu í kjölfarið, enda bráðsniðug leið til endurnýtingar. Á Íslandi hafa viðskipti með notaðar flíkur verið með margskonar hætti um árabil en þeir einstaklingar sem kjósa að selja notaðar flíkur hafa þurft að standa vaktina sjálfir og sjá um sölu og markaðssetningu. Með tilkomu endursölumarkaða hafa orðið breytingar á því fyrirkomulagi þar sem starfsmenn markaðanna sjá alfarið um söluna á meðan seljendur geta fylgst með söluferlinu með rafrænum hætti.
Sigríður Helga Ragnarsdóttir rannsakaði nánar endursölumarkaði hér á landi og er rannsóknin hluti af lokaverkefni hennar til BS-prófs í viðskiptafræði. Leiðbeinandi hennar var dr. Inga Minelgaité, dósent við Háskóla Íslands. Rannsóknin leiddi í ljós að viðskiptavinir telja verðlag hafa meira vægi heldur en sjálfbærni þegar verslað er við slíka markaði.
Viljinn ræddi við Sigríði Helgu og Ingu nánar um rannsóknina sem kannaði viðhorf neytenda, burt séð frá því hvort þeir hafi reynslu af endursölumörkuðum eða ekki.
Af hverju eru mikilvægt að rannsaka þetta?
„Tískuiðnaðurinn er ein ósjálfbærasta atvinnugreinin en á undanförnum áratugum hafa komið upp hneyksli sem tengjast siðlausri hegðun. Ef við tökum þetta og bætum með okkur til vitundar um sjálfbærni, þá birtast nýjar tegundir neyslutísku. Hreyfingar eins og slow living hafa hvatt til dæmis slow fashion movement. Viðskiptavinir eru meðvitaðri í dag um hlutverk sitt í að leggja sitt af mörkum til sjálfbærni umhverfisins og sumir þeirra velja sér notaðar vörur (secondhand), ekki bara vegna verðsins, heldur vegna þess að það er í takt við lífsspeki og gildi þeirra. Aukin vitund neytenda um sjálfbærni vöru, fyrirtækja, viðskiptalíkana leiðir til nýrra viðskiptahugmynda og breytir viðhorfum okkar“ – segir Inga.
Hver eru helstu niðurstöður rannsóknarinnar?
„Rannsóknin leiddi í ljós að neytendur eru jákvæðir í garð endursölumarkaða hvað varðar sjálfbærni og ódýrt verðlag. Hins vegar finnst þeim vera óreiða á endursölumörkuðum sem gerir það að verkum að þeir eiga erfitt með að leita að fatnaði í stóru og fjölbreyttu úrvali sem boðið er upp á. Þar sem endursölumarkaðir bjóða upp á fjölmarga bása þá er ljóst að seljendur þurfa að ganga betur úr skugga um að básinn þeirra sé snyrtilegur svo þeir missi ekki viðskipti. Að lokum var athugað sérstaklega hjá þeim sem hafa keypt fatnað á endursölumörkuðum hvaða þáttur skiptir þá mestu máli með tilliti til sjálfbærni, verðlags og vöruúrvals. Hópurinn sammæltist um að lágt verðlag væri það aðdráttarafl sem lætur þá versla fatnað á endursölumörkuðum“ – segir Sigríður Helga.
Munur milli kaupenda
„Einnig var litið á viðhorf til sjálfbærni eftir aldri þátttakenda en þar kom í ljós að þátttakendur sem voru 20 ára og yngri voru mest sammála því að þeir versli notaðan fatnað með hag umhverfisins í huga“ – segir Sigríður Helga og bæti við að hjá þeim sem ekki hafa verslað fatnað á endursölumörkuðum kom í ljós að þeir sem voru á aldrinum 41-50 ára voru mest sammála því að vilja ekki ganga í notuðum fatnaði eða kaupa notuð barnaföt. Sá hópur gerði sér þó grein fyrir skaðlegum áhrifum sem umhverfið verður fyrir af völdum fataiðnaðarins.
Þetta er í samræmi við þá vitundarvakningu sem hefur verið að eiga sér stað í heiminum þar sem yngri kynslóðir hafa verið að stíga fram og sett þeim eldri stólinn fyrir dyrnar hvað varðar neysluvenjur þeirra.
Þátttakendur sammæltust um það að verðlagið væri hagstætt á endursölumörkuðum, burtséð frá því hvort viðkomandi hafi verslað fatnað þar eða ekki, tekjur þátttakenda hafa þó áhrif. Sigríður Helga bendir á að þeir sem hafa ekki verslað fatnað á endursölumörkuðum og tilheyra tekjuminnsta hópnum voru mest sammála því að fatnaður væri of hátt verðlagður. Hjá þeim sem hafa verslað fatnað á endursölumörkuðum, þá voru allir tekjuflokkar mjög sammála því að fatnaður á endursölumörkuðum væri ódýr en tekjuhæsti hópurinn var þó mest sammála.
Rými til úrbóta
Sigríður Helga vísar til niðurstaðna rannsóknarinnar og segir að kaupendum finnst vera óreiða og eiga erfitt með að leita að fatnaði í stóru og fjölbreyttu úrvali sem boðið er upp á. Þar sem endursölumarkaðir bjóða upp á fjölmarga bása þá er eðlilegt að óreiða myndist, en ljóst er að seljendur þurfa að ganga betur úr skugga um að básinn þeirra sé snyrtilegur svo þeir missi ekki viðskipti.
Viljinn rýnir í athyglisverðar háskólarannsóknir og segir frá þeim. Sendu okkur ábendingu á viljinn(hjá)viljinn.is