Enn er Pálmi Haraldsson mættur í flugbransann

Pálmi Haraldsson fjárfestir og sannkallaður flugáhugamaður.

Pálmi Haraldsson, fjárfestir og fyrrverandi eigandi Fons, er orðinn stærsti einstaki einkafjárfestirinn í hluthafahópi Icelandair Group með rúmlega eins prósents eignarhlut.

Þrjú félög í eigu Pálma, áttu samanlagt um 51,3 milljónir hluta, jafnvirði um 423 milljóna króna miðað við núverandi gengi bréfa Icelandair, í lok síðustu viku, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sem skýrir frá málinu í dag.

Eignarhlutur Pálma í Icelandair er meðal annars í gegnum eignarhaldsfélögin Sólvöll og Ferðaskrifstofu Íslands en það fyrirtæki rekur ferðaskrifstofurnar Sumarferðir, Úrval Útsýn og Plúsferðir. Mun ætlunin að tefla Þórunni Reynisdóttur, forstjóra Úrvals Útsýnar, fram við stjórnarkjör í Icelandair á aðalfundi félagsins snemma í næsta mánuði.

Pálmi gjörþekkir hinn brothætta flugrekstur og virðist ekki af baki dottinn miðað við þessar fregnir, enda þótt fyrri flugævintýri hafi flest endað með skelli. Hann var um tíma stór hluthafi í Icelandair og sat í stjórn flugfélagsins á árunum 2003 og 2004, seinna eignaðist hann lággjaldaflugfélagið Iceland Express og var eigandi þess þegar það fór í gjaldþrot. Hann var líka aðaleigandi Sterling-flugfélagsins sem varð gjaldþrota með miklum hvelli í október 2008 og Astraeus sem leigði út vélar, en það fór líka í þrot.

Pálmi hefur undanfarin ár látið minna fyrir sér fara og einbeitt sér að fjárfestingum í ferðaþjónustu með Ferðaskrifstofu Íslands. Kaup hans undanfarið á bréfum í Icelandair benda til þess að hann sé aftur kominn upp á yfirborðið í íslensku viðskiptalífi og ætli sér stóra hluti.