Erna gengin til liðs við Mjólkursamsöluna

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur.

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur hefur verið ráðin verkefnastjóri á rekstrarsvið hjá Mjólkursam­sölunni. Hún mun starfa við greiningu á starfsskilyrðum mjólkur­framleiðslunnar og önnur verkefni.

Erna hefur víðtæka þekkingu og reynslu af málefnum landbúnaðar og atvinnulífsins eftir að hafa starf­að á þeim vettvangi sl. þrjá áratugi. Hún starfaði á árunum 2000–2019 sem hagfræðingur og aðstoðar­ framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Áður var hún aðstoðarfram­kvæmdastjóri Framleiðsluráðs land­búnaðarins í 3 ár og forstöðumað­ur Hagþjónustu landbúnaðarins á Hvanneyri þar á undan, að því er Bændablaðið greinir frá.

Erna sat í stjórn Arion banka (áður Nýja Kaupþing) 2008 til 2010, þar af stjórnarformaður í sex mánuði og í stjórn Lífeyrissjóðs bænda frá árinu 2019. Þá hefur hún sinnt kennslu í hagfræðigreinum við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Bændaskólann á Hólum og starfað hjá Búnaðarsamtökum Vesturlands og Búnaðarsambandi Skagafjarðar.

Erna er búfræðingur að mennt með BSc í búvísindum, MSc prófi í landbúnaðarhagfræði frá University College of Wales og diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.

„Ég er mjög spennt fyrir nýjum áskorunum. MS er eitt stærsta afurða­sölufyrirtæki landsins í eigu bænda og hér eru gríðarlega fjölbreytt og krefjandi verkefni. Reynsla mín af störfum fyrir landbúnaðinn kemur sér vel, auk þess sem ég þekki vel til í sveitum landsins. Ég hlakka mjög til að kynnast starfseminni og leggja mitt af mörkum í að efla hag þess og eigendanna, sem eru kúabændur allt í kringum landið,“ segir Erna Bjarnadóttir um nýja starfið í samtali við Bændablaðið.

„Það er fengur að því að fá Ernu inn í fyrirtækið. Hún hefur dýrmæta reynslu sem mun nýtast okkur vel,“ segir Pálmi Vilhjálmsson, aðstoðar­ forstjóri Mjólkursamsölunnar.

Erna er fædd og uppalin á Stakk­ hamri á Snæfellsnesi og ólst þar upp við að mjólka kýr, reka kindur og spretta á hrossum um Löngufjörur. Hún hefur stundað hestamennsku í áratugi. Ferðalög um Ísland eru annað aðaláhugamál hennar. Erna segir: „Ég er glöð að koma á ný til starfa fyrir bændur og þakklát fyrir það traust sem þeir hafa sýnt mér í gegnum tíðina.“

Erna hefur hafið störf hjá Mjólkur­samsölunni.