Stjórn HS Orku hf. hefur að ósk fráfarandi forstjóra, Ásgeirs Margeirssonar, gert samkomulag um að flýta áður ákveðnum starfslokum og lét hann formlega af störfum í gær.
Stjórnin hefur falið Finni Beck, lögfræðingi félagsins, að gegna stöðu forstjóra tímabundið þar til nýr hefur verður ráðinn. Staða forstjóra HS Orku var sem kunnugt er auglýst til umsóknar í byrjun september. Ráðningarferli stendur yfir og er gert ráð fyrir að því ljúki á næstu vikum.
Finnur Beck hefur starfað sem aðallögfræðingur HS Orku frá árinu 2015 en var þar áður starfandi héraðsdómslögmaður og einn eigenda á Landslögum lögmannsstofu.
Finnur útskrifaðist með ML gráðu úr lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 en hann er jafnframt með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann var um árabil fréttamaður á Ríkissjónvarpinu.