Formleg kosningaumfjöllun hefst í Ríkisútvarpinu –– 3 nýir fréttamenn

„Nú þegar búið er að staðfesta framboðin hefjum við okkar formlegu kosningaumfjöllun. Við munum kynna framboðin á kosningavef, í útvarpi og í sjónvarpi. Frambjóðendur verða teknir tali í Speglinum í næstu viku og í Kastljósi í vikunni fyrir kosningar,“ segir Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri RÚV í samtali við Viljann um fyrirkomulag umfjöllunar Ríkisútvarpsins fyrir forsetakosningarnar í næsta mánuði.

Hann segir að kvöldið fyrir kjördag mætist báðir frambjóðendurnir, Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson í beinni útsendingu og að kvöldi kjördags verði fylgst með talningu atkvæða og efnt til kosningavöku.

„Við tökum frambjóðendur líka tali í fréttum og í þáttum á dagskrá RÚV, auk þess sem við birtum kynningarefni frá frambjóðendum,“ bætir hann við.

Þrír fréttamenn hafa nýlega hafið störf hjá RÚV og koma þau öll frá öðrum miðlum. Það eru þau Markús Þór Þórhallsson (kenndur við Djúpalæk), sem stýrt hefur þáttum um árabil á Útvarpi Sögu, Anna Lilja Þórisdóttir sem kemur af Stundinni en var áður varafréttastjóri á Morgunblaðinu og Anna Sigríður Einarsdóttir af Morgunblaðinu.

Að sögn Heiðars Arnar munu þrír sumarstarfsmenn aukinheldur hefja störf í næsta mánuði í afleysingum vegna sumarleyfa.