Forsætisráðherra biðst lausnar fyrir helgi og fer í forsetaframboð

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun biðjast lausnar frá embætti í dag eða á morgun og tilkynna formlega um framboð sitt til embættis forseta Íslands, skv. heimildum Viljans innan úr stjórnkerfinu.

Eftir að hún staðfesti að hún væri alvarlega að velta fyrir sér framboði, hefur hvatningarskilaboðum og stuðningskveðjum hreinlega rignt yfir forsætisráðherrann hvaðanæva úr þjóðfélaginu, skv. nánum samstarfsmönnum Katrínar sem Viljinn hefur rætt við. Meta þeir stöðuna sem svo, að stuðningur við hana sé þvert á flokka og langt umfram hefðbundinn stuðningshóp Vinstri grænna, þar sem hún er formaður.

Búast má við því að Katrín muni tilkynna þetta formlega á ríkisstjórnarfundi og svo á blaðamannafundi með stuðningsmönnum sínum í framhaldinu. Loks þarf hún að sitja ríkisráðsfund sem yrði þá síðasti fundur ráðuneytis Katrínar Jakobsdóttur sem setið hefur frá árinu 2017.

Vilji er innan stjórnarflokkanna þriggja til að sitja áfram í ríkisstjórn enn um sinn. Heimildamenn Viljans segja ekki enn útkljáð hver verði forsætisráðherra við brotthvarf Katrínar, en líklegast sé að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, fái það hlutverk.

Að sama skapi megi þá gera því skóna, að Svandís Svavarsdóttir fari þá úr matvælaráðuneytinu og fari í inniviðaráðuneytið eða annað ráðuneyti, til að bregðast við vantrausttillögu sem verður að óbreyttu lögð fram eftir helgi, þegar þing kemur saman að loknu páskaleyfi.

Forsetakosningar verða hinn 1. júní nk. Katrín Jakobsdóttir mun skv. heimildum Viljans segja af sér sem þingmaður og formaður Vinstri grænna á næstu dögum.