Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands biðst skilyrðislaust afsökunar á ummælum sem hann viðhafði í síðustu viku í færslu sem hann hefur birt á fésbókarsíðu embættisins.
Þar segir hann meðal annars:
„Ég biðst afsökunar á að hafa í sjónvarpsviðtali í síðustu viku notað orðið fáviti í umræðu um viðkvæm og erfið mál og tekið almennt of sterkt til orða. Það gerði engum gott, allra síst mér. Afsökunin er skilyrðislaus. Ég mun ekki nota orðið aftur í þessu samhengi þótt það hafi verið gert með þessum hætti í fræðslu í grunnskólum landsins. Það getur kannski átt við þar en alls ekki af minni hálfu. Ég sé svo sannarlega eftir því og ítreka að ég bið allt það fólk, sem ég særði, afsökunar.
Þau orð, sem ég birti fyrir viku á þessum vettvangi, voru þessi: Umræða að undanförnu um ofbeldi og áreitni, þöggun og meðvirkni, hefur verið þörf. Hún er hluti af stærri umræðu sem staðið hefur síðustu misseri og sýnir að við þurfum enn að gera mun betur í því hvernig samfélagið tekur á þessum málum. Það er nauðsynlegt að þolendur upplifi öryggi til að stíga fram, segja frá og leita réttar síns. Þau, sem verða fyrir ofbeldi eða áreitni, eiga ekki að þurfa að þola skömm eða afneitun. Í opnun umræðunnar felast tækifæri til að gera betur og hlúa að íþróttastarfinu þannig að jafnræði og gagnkvæm virðing sé leiðarljós. Sjálfur hef ég verið viðloðandi íþróttir frá barnæsku og er annt um hreyfinguna. Ég hef kynnst fjölmörgum leikmönnum, þjálfurum og stjórnarfólki í heimi íþróttanna og veit að þar starfa flestir af heilindum. Margt má betur fara og við skulum vinna saman að því. Sama gildir um heim menningar og lista, stjórnmála og stjórnsýslu, fjölmiðla og skóla – alla kima samfélagsins þar sem metoo-byltingin hefur svipt hulu af áreitni og ofbeldi. Við þurfum réttlæti, sanngirni og viðurlög við lögbrotum en líka umræðu, fræðslu og leiðir til að leyfa fólki að bæta ráð sitt, sýni það iðrun og eftirsjá.“