Forstjóri Landspítalans meðal 150 starfsmanna í sóttkví

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans er meðal 150 starfsmanna spítalans sem komnir eru í sóttkví vegna smits sem greindist hjá starfsmanni í yfirstjórn í skrifstofuhúsnæði LSH við Skaftahlíð.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, staðfestir þetta við Viljann. Segir hún unnið eftir viðbragðsáætlun, en spítalinn var færður á hættustig í gær vegna stigmögnunar COVID-19 í þriðju bylgju faraldursins hér á landi.

Anna Sigrún segir að starfsmenn vinni heiman frá sér meðan sóttkví stendur yfir, en mikill fjöldi fór á vegum spítalans í skimun um helgina. Gert er ráð fyrir að skimun haldi áfram í dag.

Á fundi viðbragðsstjórnar og farsóttarnefndar Landspítala í gær var ákveðið að færa spítalann af óvissustigi á hættustig í samræmi við viðbragðsáætlun Landspítala. Upp hafa komið smit meðal starfsmanna sem kallar á sóttkví starfsfólks sem kann að hafa áhrif á starfsemi spítalans. Annars vegar er um að ræða smit í Skaftahlíð 24 þar sem skrifstofur og kennslurými eru til húsa og hins vegar í skurðlækningaþjónustu.

Ekki er gert ráð fyrir skerðingu þjónustu við sjúklinga að svo stöddu en unnið er að endurskipulagningu þjónustuþátta til að tryggja samfellda og örugga þjónustu.

Eftirfarandi ákvarðanir taka gildi nú þegar:

1. Algjör grímuskylda er á öllum starfsstöðvum Landspítala nema þegar matast er og skal þá halda 2 metra fjarlægðarmörk. Inniliggjandi sjúklingar eru þó undanþegnir grímuskyldu.
2. Alla fundi starfsmanna ber að halda með rafrænum hætti nema brýna nauðsyn beri til annars og gildir þá grímuskylda.
3. Þeir starfsmenn sem geta sinnt störfum sínum að heiman skulu gera það í samráði við sinn næsta yfirmann.
4. Engin leyfi sjúklinga eru heimil.
5. Aðeins einn gestur getur heimsótt sjúkling á dag og allir gestir verða að bera grímu. Heimsóknartímar eru óbreyttir.

Á spítalanum eru nú á þriðja hundrað sjúklingar í eftirliti á Covid-19 göngudeild og 2 sjúklingar liggja á spítalanum vegna Covid-19 sýkingar.