Sigríður Halldórsdóttir fréttamaður á RÚV hefur verið ráðin aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigríður er með BA-próf í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá IBEI, Institut Barcelona d’Estudis Internacionals, í Barcelona á Spáni.
Sigríður hefur síðastliðin tíu ár unnið við fréttir, fréttaskýringar og dagskrárgerð á RÚV. Hún hefur m.a. unnið við fréttaskýringaþáttinn Kveik, verið umsjónarmaður í Landanum og samið og séð um sjónvarpsþættina Ævi og Rætur. Sigríður hefur fjórum sinnum hlotið Eddu-verðlaun ásamt félögum sínum fyrir sjónvarpsþáttagerð og fyrr á árinu var hún valin Sjónvarpsmaður ársins á Eddunni. Árið 2018 var Sigríður auk þess tilnefnd til Blaðamannaverðlaunanna fyrir umfjöllun um plastmengun, að því er fram kemur á vef ráðuneytisins.
Maki Sigríðar er Jón Ragnar Ragnarsson, kennari við Menntaskólann við Hamrahlíð, og eiga þau tvær dætur; Urði 9 ára og Hallveigu 3 ára.
Sigríður Halldórsdóttir tekur við starfi Sigríðar Víðis Jónsdóttur sem verið hefur aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra frá því í júní 2018. Hún hefur störf 9. desember n.k.