Við upphaf kirkjuþings fyrir helgi, tók Drífa Hjartardóttir við stöðu forseta kirkjuþings. Með því varð hún fyrst kvenna til að gegna þeirri stöðu. Hún tekur við af Magnúsi E. Kristjánssyni sem gaf ekki kost á sér aftur, eftir sex og hálft ár sem forseti.
Drífa var þingmaður Sunnlendinga fyrir Sjálfstæðisflokkinn um árabil og vinsæll sveitarstjórnarmaður í héraði, en hún býr á þeirri frægu jörð, Keldum á Rangárvöllum sem hefur verið kirkjustaður um aldir og um tíma klaustur.
„Ég er að taka við mjög virðingarverðu hlutverki. Forverar mínir hafa verið framúrskarandi menn,“ sagði Drífa. „Ég vil þakka Magnúsi fyrir hans miklu og góðu störf, og ég hef átt gott samstarf með honum í forsætisnefnd,“ segir Drífa í frétt á vefsíðu Þjóðkirkjunnar.
Drífa segist vera spennt fyrir hlutverkinu og að það séu tímamót að kona skuli vera kosin forseti kirkjuþings. „Ég tel þetta vera til marks um breytta tíma.“
Á kirkjuþingi sitja 29 fulltrúar, 12 prestar sem valdir eru af djáknum og prestum, og 17 leikmenn kosnir af sóknarnefndum. Við lok þingsins fer fram kosning um nýtt kirkjuráð sem mun sitja næstu fjögur árin.
Meðal þess sem er til umræðu á þinginu er sameining prestakalla og endurskoðun á sambandi ríkis og kirkju.