Fyrsti skólinn fyrir andlega og umhverfislega þenkjandi frumkvöðla í Keníu

„Þekkir þú einhvern sem hefur klárað skólagönguna og þá fyrst hefur viðkomandi farið að læra eitthvað sem skiptir máli í lífinu? Ég er einn af þeim“.

Svo mælir Húni Húnfjörð.

Húni fæddist á Blönduósi, en er alinn upp í Keflavík þar sem hann býr núna. Hann fór snemma í sveit, eða um 9 ára gamall og var í sveit á sumrin þangað til hann varð 17 ára gamall. Húni hefur þó búið víða um land og í öðrum löndum, eins og í Bandaríkjunum, Danmörku, Svíðþjóð og Englandi. Hann kláraði viðskiptanám í Bandaríkjunum árið 2002 og tók svo meistaragráðu við Háskólann á Akureyri í alþjóðaviðskiptum árið 2009. Húni er þriggja barna faðir en á síðustu árum hefur hann tekið að sér 35 börn í viðbót sem búa í Keníu. Verður nú farið betur í það ævintýri.

„Það var nú samt ekki fyrr en árið 2012 sem ég fór að læra frá þjálfurum um allan heim, sem voru búnir að áorka merkilegum hlutum í lífinu sem ég fór að læra eitthvað að gagni. Semsagt þegar ég læri eitthvað nýtt í dag sem nýtist í lífinu, spyr ég alltaf sömu spurninguna: Af hverju er þetta ekki kennt í skólum, kannast þú við þá hugmynd að skólakerfið í dag sé takmarkandi“? Spyr Húni. 

Sem dæmi hefur Húni fengið þjálfun í fjárfestingum, auðæfaþjálfun ( wealth coaching ), markþjálfun, andlegri þjálfun, draumaþjálfun og þjálfun til að læra að gefa út efni, eins og að skrifa bækur og búa til námskeið. Þannig að verkefni hans hafa verið og eru fjölbreytt.

Nýjasta verkefni Húna er uppbygging og umsjón munaðarleysingjahælisins Jabez, í Keníu.

Hvernig og hvenær byrjaði Húni á þessu verkefni ? 

Það hefur blundað í Húna frá blautu barnsbeini að hjálpa til í Afríku. Hann kynntist munaðarleysingjahælinu Jabez í Keníu, í byrjun árs 2016. Hann hóf fljótlega að styrkja þau 10 munaðarlausu börn sem þar voru þá hýst og fór sá styrkur í mat og klæðnað. Í nóvember 2018 fór hann svo sjálfur til Keníu. 

Þá vorum við komin með 35 börn á aldrinum 3 – 13 ára sem ég sé um mánaðarlega. Þegar ég fór til Keníu fjárfesti ég í jörðinni sem liggur við hliðina á hælinu. Þetta er jörðin sem við erum að reisa skólann á“. Segir Húni.

Fljótlega eftir þá ákvörðun að byrja að styrkja, hafði maður samband við mig frá Keníu, sem heitir Godwin Wesonga Wanga. Hann hafði samband í gegnum Facebook og ég fór varlega í að senda út peninga. Ég sagði að ég myndi aldrei gefa honum pening en ég gæti sent honum þau föt sem hann var að biðja um á sínum tíma, í byrjun ársins 2016. Ég hafði svo samband við hann tveimur mánuðum síðar og spurði hvort fötin væru komin, sem ég sendi ekki. Ég vildi bara athuga hvort hann myndi segja já og biðja svo um peninga. Hann sagði mér að þau hefðu ekki borist og ég brást við mjög hissa, en sagði honum að ég skildi þá senda út smá peninga í staðinn, en ég krefðist þess að sjá hvað keypt væri fyrir peninginn og fá myndir af börnunum. Eftir þetta fékk ég myndir af börnunum með plaköt þar sem stóð hvað þau voru þakklát fyrir að fá þessi föt og matinn sem keyptur var fyrir peninginn. Síðan þá hef ég styrkt þau mánaðarlega og fengið myndir og myndbönd reglulega af starfseminni þarna úti“.

Godwin og foreldrar hans, tóku þessi börn inn á sitt eigið heimili og sáu um þau og sjá enn um börnin sem nú eru orðin 35 talsins eftir að Húni kom að verkefninu. Í lok árs 2018 fór Húni til Keníu til að kaupa jörðina við hliðina á heimili Godwin og foreldra hans og til þes að hitta öll börnin og byrja að plana hvernig þau gætu reist skóla á jörðinni. Þau stefna að því að þetta verði fyrsti skóli fyrir andlega og umhverfislega þenkjandi frumkvöðla í Keníu og verði orðinn sjálfbær innan 5 til 7 ára eftir að kennsla byrjar í skólanum.


„Einn daginn var ég að vinna með þeim í sjálfs-styrkingar kennslu. Ég bað þau að koma á mitt gólfið og spurði þau hvernig þau ætla að breyta heiminum þegar þau verða eldri. Þarna stóð hún Chynthia og reyndi að hvísla því að hún ætlaði að gera það með því að verða kennari. Ég heyrði ekki hvað hún sagði og spurði aftur. Eftir nokkur skipti voru krakkarnir farnir að hvetja hana til að tala hærra og loks heyrði ég hvað hún sagði. Ég ætla að vera kennari. 

Sýndu mér núna hvernig þú munt ganga þegar þú ert orðinn kennari, sagði ég við hana. Hún byrjaðiað ganga um gólfið, með hangandi haus, axlirnar niðri og bogið bakið. Ég sagði henni að nú væri hún orðinn kennari sem væri að breyta heiminum til hins betra, þú ert frábær kennari og börnin sem þú ert að kenna er svo þakklát fyrir þig. Ímyndaðu þér núna hvernig þú munt ganga, sagði ég við hana. Hún reisti sig upp, tók stærri skref og byrjaði að brosa. Hún gekk um gólfið eins og þetta væri nú þegar búið að gerast. Þvílík breyting sem var á henni á þessum stutta tíma. Henni leið vel með sjálfa sig eftir að fá að upplifa sýnishorn af framtíð sinni. Næstu daga og enn í dag, er hún allt önnur, glaðari og stoltari en hún hafði verið áður.
Árið 2017 fundum við hana á götunni og enginn vildi neitt með hana hafa. Hún var yfirgefin af foreldrum sínum ung og hafði verið á götunni í nokkurn tíma áður en við fundum hana og tókum hana í fjölskylduna. Í dag gengur hún um eins og sigurvegari og hlakkar til að byrja að breyta heiminum til hins betra“.


Hvar eru þau stödd í ferlinu?

„Við erum byrjuð að búa til múrsteina fyrir fyrstu bygginguna. Fyrsta byggingin verður með baðherbergi, þvottahúsi, einu herbergi fyrir kennara og svefnloft fyrir krakkanna. Í stóra rýminu í fyrstu byggingunni verður aðstaða til að kenna á tölvur og gera verkefni, horfa á skjávarpa og stór eldhús til að elda ofan í alla krakkanna og aðstaða til að borða þar. Í dag er allt eldað á moldargólfi. 

Við erum einnig búin að setja saman söfnum til að bora fyrir vatni fyrir skólann og ætlum við að gefa öllum vatn sem þurfa á að halda í umhverfinu í kringum skólann, því það er eitt af hugmyndfræðunum sem skólinn stendur fyrir, að gefa aftur til samfélagsins“.

Lesendum er bent á söfnunina fyrir hreinu vatni : https://www.gofundme.com/f/drinking-water-for-orphans

Hvað verður kennt við skólann?

Þau fög sem verða kennd í skólanum verða enska og swahili, stærðfræði, verkfræði, forritun, markaðssetning, vöruþróun, heilun, yoga, hugleiðsla, öndun, núvitund, kæling, sjálfs-styrking, fjármálalæsi, grafísk hönnun svo eitthvað sé nefnt. Einnig eru þau með dýr sem þarf að sjá um og þar koma börnin að einnig. 

Hvenær verður skólinn tilbúinn?

„Nú erum við að bjóða fyrirtækjum að koma og verða styrktaraðilar að þessu skemmtilega verkefni, þannig að ég Húni, geti farið til Keníu aftur til að reisa skólann með þeim og byrjað að kenna. Því fleiri sem koma að verkefninu því fyrr getum við byrjað að byggja og kenna. Við bjóðum fyrirtækjum að koma að verkefninu með því að styrkja okkur mánaðarlega með upphæðum frá 1.000 kr. til 200.000 kr. Ef vel gengur að fá ykkur í lið með okkur, þá getum við byrjað að byggja og kenna í byrjun árs 2020“.

Í hvað fara peningarnir?

„Styrkirnir fara 100% beint í að grafa fyrir vatninu, setja sólarsellur á húsið fyrir rafmagni, grafa fyrir rotþró sem verður notuð til þess að búa til metan gas til að elda á, búa til fleiri múrsteina og það sem þarf til að byggja öll húsin. Einnig fer hluti af styrkjunum til að kaupa mat og föt fyrir börnin. Þeir sem óska eftir fá fréttablað frá þeim ársfjórðungslega, þá slíkt. Þar förum við yfir það helsta sem hefur gerst í verkefninu og svo áframhaldandi fréttir úr kennslunni og úr lífi barnanna sem þau hýsa og kenna.Við erum núna kominn með mann í verkefnið frá Origon USA að nafni Mick Forlines sem er að safna fyrir mat fyrir krakkana, þá nýtist fjármagnið frá mér meira í uppbygginguna sjálfa“.

Fyrstu múrsteinarnir sem fara í byggingu skólans

Er íslenskt góðgerðarfélag sem heldur utan um þetta?

Húni og félagar stofnuðu félagasamtökin Skólinn Jabez í Keníu (470119-0200) þann 7.janúar 2019 til þess að halda utan um þetta verkefni. Þau geta sent greiðsluseðla beint í heimabanka eða tekið á móti einstökum styrkjum í bankareikninginn þeirra:

0142-15-020037. 

Hvernig lítur skólinn endanlega út og hvað mun kosta að byggja hann?

Á jörðinni sem þau byggja á, verða 5 kennslustofur, eitt hús sem þjónar sem eldhús, vinnuaðstaða og svefnpláss. Eitt hús sem verður sérstaklega byggt fyrir kennara og auka svefnpláss. Áætlunin er að þetta munu kosta um 15 miljónir íslenskar krónur, að byggja húsin, með sólar-rafmagni, aðgang að hreinu vatni og fráveitu sem framleiðir metan. Það verður grænt tún í miðjunni sem þau nota sem aðstöðu til kennslu utandyra. 

„Þegar allri vinnu líkur á byggingunum, er áætlunin að við þurfum milli 200.000 – 300.000 kr. á mánuði til að viðhalda svæðinu, kaupa mat og nauðsynjar fyrir skólann. Þar reiknum við með að vera komin með allt að 50 börn. Það er allt mun ódýrara í Keníu en hérna á Íslandi og þess vegna er hver króna mun meira virði þar, og við sjáum fyrir okkur að vera orðin sjálfbær innan 5-7 ára“. Segir Húni. 

Þegar Húni Húnfjörð er spurður hvort hann sé með eitthvað heilræði handa okkur sem á Íslandi búa hefur hann þetta að segja : 

„Það er að sjálfsögðu margt sem hægt væri að kenna og gera betur, en ef ég mætti bara gefa eitt heilræði þá væri það að trúa því EKKI að bara sé hægt að gera hlutina á einn veg. Það er ekki til bara ein rétt leið eða einn sannleikur. Vera tilbúin að prófa og lesa þig til um hlutina í stað þess að láta mata sig af staðreyndar villum sem geta þá orðið þinn sannleikur. Vertu með opinn huga þegar þú lærir eitthvað nýtt og skoðaðu hlutina þannig að þú fáir fleira en eitt sjónarhorn á hlutina eða aðferðafræðina sem þú ert að læra. Þú ert með ótrúlega góðan áttavita inní þér sem er oftast réttur, sem kallast innsæi. Ef einhver, til dæmis, segir að eitthvað sé ólæknanlegt þýðir það bara að sá aðili eða aðferðafræði getur ekki hjálpað viðkomandi að lækna sig sjálfur. Vertu með víðsýn á hlutina og vertu tilbúin að prófa hvað virkar fyrir þig í hverju sem er. Þú ert miklu kraftmeiri vera en þig grunar“. 

Til þess að skoða verkefni Húna enn betur er hægt að fara á eftirfarandi síður : 

http://hunihunfjord.com/

http://jabez.hunihunfjord.com/

https://www.facebook.com/JabezOrphanage/


Viljinn óskar Húna Húnfjörð alls hins besta í verkefni sínu.