„Nú hafa kjördæmafélögin lokið við að stilla upp á lista fyrir komandi kosningar. Þar með lýkur tímabili sem er alltaf það erfiðasta fyrir hvern flokk, þegar samherjar takast á um sæti. Öll félögin stóðu frammi fyrir þeim „lúxusvanda“ að mun fleira öflugt fólk sóttist eftir sæti en sem nam þeim sætafjölda sem var til ráðstöfunar. Kjördæmafélög og uppstillingarnefndir þurftu því að takast á við vandasamt hlutverk. Nú er ljóst að nokkrir öflugir þingmenn og varaþingmenn flokksins verða ekki í framboði í næstu kosningum. Þar er um að ræða afburða fólk sem hefur verið ómetanlegt á kjörtímabilinu. Reynsla þess og hæfni mun þó vonandi nýtast okkur áfram í baráttunni þótt það verði með öðrum hætti.,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í bréfi sem hann sendi Miðflokksfólki í gærkvöldi.
„Stjórnmálaflokkur er meira en þingflokkurinn og mikilvægt að hafa á að skipa fólki sem getur tekist á við hin ýmsu hlutverk fyrir flokkinn og landið. Ég horfi með söknuði á bak þingmönnum úr þingflokknum, sem héldu merki flokksins hátt á lofti, en mun áfram sækja til þeirra ráð og biðja þá að taka að sér mikilvæg verkefni þar sem reynsla þeirra og þekking nýtist samfélaginu,“ bætir hann við.
Sigmundur Davíð segir kjördæmafélögin hafa skilað „gríðarlega öflugum framboðslistum“ og fremur en að fara þá leið að leita að „frægu fólki“ utan flokksins séu listarnir skipaðir fólki sem hefur reynst flokknum vel og verið talsmenn skynsemishyggju við erfiðar aðstæður.
Of mikil áhersla á umbúðir
„Aðstæður þar sem umræða um stjórnmál hefur að allt of miklu leyti snúist um umbúðir og yfirbragð fremur en rök og staðreyndir. Faraldurinn hefur auðvitað gert okkur erfitt fyrir eins og öðrum flokkum sem veittu stjórnvöldum aðhald og andspyrnu í hinum ýmsu löndum þar til faraldurinn varð alltumlykjandi. En nú þarf að líta til framtíðar og þar mun skynsemishyggja flokksins skipta sköpum við að nýta tækifæri landsins og hefja nauðsynlega sókn,“ segir hann.
„Það vakti athygli mína að nokkrir „nútíma vinstrimenn“ á samfélagsmiðlum settu út á að á framboðslistum flokksins hefði konum og fólki af erlendum uppruna fjölgað. Slík viðbrögð úr þeim ranni eru ekki séríslenskt fyrirbrigði. Nýja vinstrið víða um heim virðist fyrst og fremst líta á fólk sem fulltrúa ákveðinna hópa fremur en einstaklinga sem dæmdir skuli af eigin verðleikum. Markmiðið með þessu er að eigna sér heilu hópana. Í því felast miklir fordómar. Fyrir vikið er brugðist illa við þegar veruleikinn fellur ekki að þeirri sýn.
Allir sem skipa sæti á lista flokksins gera það vegna þess að þeir hafa trú á því sem við stöndum fyrir, þetta er skynsemishyggjufólk sem byggir afstöðu sína á eigin skoðunum fremur en að láta draga sig í dilka. Það á við um frelsi einstaklinganna, mikilvægi þess að draga úr skattpíningu og takast á við báknið, nauðsyn þess að efla lýðræði og hemja kerfisvæðinguna, efla byggð í landinu öllu, styðja raunverulegt jafnrétti, fullveldi Íslands og menningu landsins, bæta handónýtt kerfi hælisumsókna og mikilvægi þess að Íslendingar séu hluti af samfélaginu og leggi sitt af mörkum en fyrir vikið aðstoði samfélagið þá sem standa höllum fæti.
Það segir sína sögu að þegar ekki er rætt um stjórnmál gagnast það öðrum en Miðflokknum. En þegar athyglin beinist að raunverulegri pólitík, stefnu og lausnum vinnum við alltaf á. Þótt faraldurinn hafi sett verulegt strik í reikning stjórnmálanna á Íslandi, eins og víðar, er nú tímabært að við hefjum umræðu um framtíðina og landsins gagn og nauðsynjar. Í þeim efnum mun Miðflokkurinn byggja á reynslu kjörtímabilsins þar sem öflug vörn flokksins kom í veg fyrir mörg óafturkræf mistök stjórnvalda en alveg sérstaklega á stefnu sem mun skila öllum landsmönnum stórkostlegum framförum til framtíðar,“ skrifar hann ennfremur.