Guðmundur Hrafn Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars/TBWA, var kjörinn formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa (SÍA) á 40. aðalfundi sambandsins í gær.
Ásamt honum voru kjörin í stjórn SÍA þau Bragi Valdimar Skúlason frá Brandenburg og Dóra Kristín Briem frá Íslensku auglýsingastofunni. Varamaður í stjórn er Hans Orri Kristjánsson frá Jónsson & Le’macks.
Aðalfundurinn var haldinn í húsakynnum Félags atvinnurekenda, en SÍA er aðildarfélag FA.
Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, fráfarandi formaður SÍA, rifjaði á fundinum upp að 40 ár væru um þessar mundir frá fyrsta aðalfundi sambandsins, sem stofnað var árið 1978.