Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri mannauðsstofu Landspítalans, viðskiptafræðingur og fyrrverandi landsliðskempa í handknattleik, er talinn líklegastur til að taka við forstjórastólnum á Landspítalanum.
Þetta herma heimildir Viljans innan spítalans og í stjórnkerfinu. Það kemur í hlut nýs heilbrigðisráðherra að skipa í starfið eftir störf hæfisnefndar, en vilji er til þess að horfa til fleiri þátta í starfsreynslu en læknisfræði að þessu sinni, samkvæmt sömu heimildum. Undanfarnir tveir forstjórar spítalans hafa verið læknar, þeir Björn Zöega og Páll Matthíasson, en rekstur og stjórnun spítalans hefur verið mjög til umræðu að undanförnu, eins og kunngt er.
Gunnar varð þjóðþekktur á sínum tíma sem hornamaður í handknattleik, en hann varð síðar framkvæmdastjóri hjá Actavis og forstöðumaður stefnumótunar, þá framkvæmdastjóri rekstrar og mannauðsmála hjá Xantis Pharma AG í Sviss og er með meistaragráðu í stefnumótun og stjórnun frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn.
Umsóknarfrestur um embætti forstjóra Landspítala er runninn út. Umsækjendur eru 14 og eru nöfn þeirra birt hér að neðan í stafrófsröð.
- Björn Óli Ö Hauksson, verkfræðingur
- Elísa Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur
- Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, settur forstjóri
- Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri mannauðsskrifstofu
- Hákon Hákonarson, læknir
- Jan Triebel, læknir
- Jón Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga
- Kristinn V Blöndal, ráðgjafi
- Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri
- Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga
- Reynir Arngrímsson, læknir og prófessor
- Runólfur Pálsson, starfandi framkvæmdastjóri meðferðarsviðs
- Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar
- Sigurður Erlingsson, viðskiptafræðingur
Þriggja manna hæfnisnefnd, sem starfar á grundvelli 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, mun nú meta hæfni umsækjanda en starfsreglur nefndarinnar má finna hér.
Heilbrigðisráðherra skipar í embættið til 5 ára frá 1.mars 2022.