Hættir sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar

Lára Björg Björnsdóttir er hætt störfum sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Hún tilkynnir þetta í færslu á fésbókinni og segir að hún verði tímabundið að draga úr störfum vegna álags.

„Ég hef verið heppin að fá að vinna við það sem elska síðustu tvö árin. Mér þykir ótrúlega vænt um þennan tíma sem er því miður á enda. Eftir of mikið álag, mögulega árum saman, frá því Óli minn var sem veikastur fyrstu æviárin hans og síðan skyndilegt fráfall elsku mömmu í fyrra eftir stutt veikindi, allt í fullri vinnu, þarf ég að hlusta á líkamann, fylgja ráðum lækna, minnka álag tímabundið, setja eigin heilsu í forgang og safna kröftum og orku,“ segir hún.

„Ég kveð því forsætisráðuneytið og yndislegt samstarfsfólk þar og í öðrum ráðuneytum með söknuði og hlýju. Og ekki má gleyma fjölmiðlunum góðu fyrir ánægjuleg samskipti, fjölmarga kaffibolla og skemmtilegar stundir á allskonar blaðamannafundum við allskonar aðstæður -og á ýmsum tímum sólarhrings! Takk.“