Halla Tómasdóttir býður sig aftur fram til forseta

Halla Tómasdóttir tilkynnti stuðningsfólki sínu á fundi í Grósku í hádeginu að hún hafi ákveðið að bjóða sig fram að nýju til embættis forseta Íslands í komandi kosningum, þann 1. júní nk.

Halla hefur starfað í New York undanfarin ár, sem forstjóri B-Team, en hún bauð sig fram í forsetakosningunum 2016 og hlaut þá næstflest atkvæði allra frambjóðenda, aðeins Guðni Th. Jóhannesson fékk meiri stuðning.

Halla lagði áherslu á frið, sjálfbærni og jafnrétti í ræðu sinni. „Forseti Íslands gegnir mikilvægu hlutverki og farsælum forseta þykir vænt um og skilur mikilvægi hverrar manneskju og hvers byggðarlags okkar einstöku þjóðar, án tillits til pólitískra dægurmála,“ sagði hún meðal annars.

Ávarp Höllu og fund hennar í heild sinni, má sjá í upptökunni hér að ofan.