„Mikill snillingur fallinn frá, Jón R. Hjálmarsson. Skemmtilegur maður sem gaman var að kynnast. Þessa mynd tók ef af honum 5. maí 2006 á bænum Fossi í Hrunamannahreppi þegar Rótarýklúbbur Selfoss var í heimsókn þar. Blessuð sé minning Jóns.“
Þetta segir Magnús Hlynur Hreiðarsson, fréttaritari Stöðvar 2 á Suðurlandi, í færslu á fésbók í dag, þar sem hann birtir meðfylgjandi mynd sem Viljinn hefur fengið góðfúslegt leyfi til þess að birta.
Jón R. Hjálmarsson, fyrrverandi fræðslustjóri, lést á Landspítalanum í Reykjavík síðastliðinn laugardag, 96 ára að aldri. Hann fæddist 28. mars 1922 í Bakkakoti, Vesturdal í Skagafirði, sonur þeirra Hjálmars Jónssonar og Oddnýjar Sigurrósar Sigurðardóttur. Hann lauk búfræðiprófi frá Hólum 1942, stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1948, cand. mag.-prófi í ensku, þýsku og sögu frá Óslóarháskóla 1952 og cand. philol.-prófi í sagnfræði frá sama skóla árið 1954.
Eftir nám gerðist Jón skólamaður og var skólastjóri Héraðsskólans í Skógum undir Eyjafjöllum 1954-1968 og frá 1970-1975 og skólastjóri við Gagnfræðaskólann á Selfossi 1968-1970. Hann var síðan fræðslustjóri á Suðurlandi frá 1975 til starfsloka árið 1990.
Jón bjó lengst af með fjölskyldu sinni á Selfossi, en seinni árin í höfuðborginni.
Jón var vinsæll ferðaleiðsögumaður um árabil. Hann elskaði landið sitt og söguna og ferðir hans með eldri borgara nutu mikilla vinsælda. Eftir hann liggja margar bækur, meðal annars kennslurit og bækur um sagnfræði og þjóðlegan fróðleik.
Jón R. Bárðarson hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1983 og var sæmdur Paul Harris Fellow-orðu Rotaryhreyfingarinnar 1986 og 1996.
Hann kvæntist Guðrúnu Ó. Hjörleifsdóttur 25. september 1954 og börn þeirra eru Halldóra, Hjálmar Andrés, Hjörleifur Rafn, Oddný Sigurrós og Guðrún Helga. Barnabörn hans eru níu talsins og eitt langafabarn.