Goðsögnin Ragnar Bjarnason, eða Raggi Bjarna, er látinn, 85 ára að aldri.
Ragnar er einhver dáðasti og þekktasti tónlistarmaður þjóðarinnar og hélt ótrúlegum vinsældum fram á hinsta dag.
Hann söng fyrst inn á hljómplötu sextán ára að aldri og hélt áfram að koma fram opinberlega allt þar til fyrir fáeinum mánuðum.
Ragnar fæddist í Lækjargötunni í Reykjavík, sonur mikils tónlistarfólks sem voru hjónin Bjarni Böðvarsson og Lára Magnúsdóttir.
Ótrúlegur ferill hans, sem spannar marga áratugi, gerir það að verkum að hvert einasta mannsbarn hér á landi hefur alist upp við söng Ragga Bjarna með „hangandi hendi“ eins og hann sagði gjarnan sjálfur.
Ragnar lætur eftir sig eiginkonu, Helle Birthe Bjarnason, og þrjú börn, Bjarna Ómar Ragnarsson, Kristjönu Ragnarsdóttur og Henry Lárus Ragnarsson. Þá lætur hann eftir sig ellefu barnabörn.
Ritstjóri Viljans þakkar áralanga vináttu á kveðjustund. Guð blessi minningu Ragnars Bjarnasonar.