Einar Hannesson lögmaður, fasteignasali og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra er látinn. Hann var þekktur hægri maður, vinsæll og vinmargur og vann sér aðdáun og virðingu fyrir störf sín enda þótt hann ætti í áralangri baráttu við ólæknandi krabbamein.
„Það er með miklum þunga í brjósti sem ég greini frá því að ástkær bróðir minn Einar Hannesson, lést á áttunda tímanum i gærkvöldi á líknardeild Landsspítalans í Kópavogi,“ skrifar Grétar Hannesson, bróðir Einars, á fésbókina í dag.
„Einar greindist með krabbamein sumarið 2013. Tæpu ári síðar var það endanlega staðfest að meinið hafði dreift sér og væri ólæknandi. Lá þá fyrir að um erfiða baráttu yrði að ræða þar sem hann ætti enga möguleika á sigri. Engu að síður hélt Einar sínu striki og sýndi af sér aðdáunarvert æðruleysi og karlmennsku í baráttunni. Hann var leiðtoginn í sínu lífi, skipstjórinn á sinni skútu, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.
Hann lét krabbameinið ekki stöðva sig, sigldi um heimsins höf, stundum einsamall og stundum með vinum. Hann reisti stórt sumarhús nánast einn síns liðs, þó að ég vilji ekki gera lítið úr þeirri miklu hjálp sem pabbi veitti honum við bygginguna. Hann ferðaðist víða og hafði unun af því að koma til nýrra staða og takast á við ný viðfangsefni. Hann kom að fyrirtækjarekstri, starfaði við lögmennsku og tók að sér mikilvæg störf sem aðstoðarmaður ráðherra.
Öll þessi lífsorka og framtakssemi blindaði okkur samferðamönnum hans og þeim sem næst stóðu ef til vill sýn. Við töldum að krabbameinið yrði hugsanlega sigrað eða að það myndi liggja í leyni árum saman.
Breyting varð hins vegar á í haust þegar Einar byrjaði að finna fyrir veikindum og lokabaráttan hófst. Frá áramótum má segja að krabbameinið hafi farið að hafa betur þeirri þeirri ströngu baráttu.
Síðustu mánuðir hafa verð afar erfiðir. Fyrst bjó Einar hjá mér og Einari Tómasi, en fyrir rúmum tveimur vikum síðan lagðist Einar inn á líknardeildina, enda var vanlíðanin og kraftleysið að ná yfirtökum. Engu að síður hélt hann áfram að berjast enda var lífsþorstinn mikill.
Fyrir þremur dögum síðan held ég að hann hafi ákveðið að nú væri nóg komið enda féllst hann þá á að taka við sterkari lyfjagjöf. Var hann umkringdur ættingjum og góðum vinum þessa síðustu daga. Við fylgdumst með honum ferðbúast og undirbúa sig fyrir þessa löngu ferð sem framundan var. Í gærkvöld ýtti hann loks úr vör og tók aftur yfir stjórnvölinn, var aftur skipstjóri á sinni skútu, og lagð af stað í ferðina miklu á alls ókunnar slóðir.
Eftir sitjum við ástvinir hans með óteljandi minningar um góðan dreng,“ segir Grétar ennfremur.
Sigldi einn á skútu yfir Atlantshafið
Einar var fæddur 16. janúar 1971 í Reykjavík. Hann lauk embættisprófi í lögfræði árið 1998 og öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi árið 2000 en hann var einnig löggiltur fasteignasali.
Þá aflaði hann sér framhaldsmenntunar í hagfræði og reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar við Harvard háskóla árið 2003 og í enskum sjó- og viðskiptarétti við Lloyd´s Maritime Academy 2008 og við London Metropolitan University 2011-2013 með sérstakri áherslu á enskan sjótryggingarétt og siglingar á heimskautaslóðum.
Á meðan Einar stundaði laganám var hann við námsvist í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og sat í stjórn Heimdallar árin 1998-1999. Einar starfaði sem lögfræðingur í samgönguráðuneytinu árin 1998-2002 og hafði umsjón með fjarskiptamálum og stefnumótun.
Árið 2002 hóf hann störf sem erindreki Íslands gagnvart Evrópusambandinu á sviði fjarskipta-, samgöngu- og ferðamála. Á árunum 2003-2010 var Einar lögfræðingur hjá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem hann hafði umsjón með innleiðingareftirliti EES löggjafar á sviði fjarskipta-, póst-, sjónvarps- og upplýsingasamfélagsþjónustu, samgangna og almannavarna auk tilskipunar um rafræn viðskipti í Noregi, Íslandi og Liechtenstein.
Árin 2010-2013 sigldi Einar á skútu yfir Atlantshafið og kannaði á þeim leiðangri tengsl laga og stjórnmálaákvarðana á lífsgæði auk þess að nema enskan sjórétt.
Blessuð sé minning Einars Hannessonar.