Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands í Genf, hefur verið kjörinn formaður viðskiptarýni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar en formennskan er eitt helsta ábyrgðarhlutverk aðildarríkja hennar. Í gær stýrði hann fjarfundi aðildarríkja stofnunarinnar um það hvernig skuli tryggja áframhaldandi starf hennar í ljósi COVID-19 faraldursins og hvernig viðskiptarýni stofnunarinnar geti haldið áfram.
Frá þessu er greint á vef utanríkisráðuneytisins. „Alþjóðaviðskiptastofnunin (World Trade Organization – WTO) myndar lagalegan og stofnanalegan ramma utan um hið fjölþjóðlega viðskiptakerfi, en grundvallarmarkmið hennar er að auka frjálsræði og tryggja réttaröryggi í heimsviðskiptum og stuðla þar með að hagvexti og efnahagslegri þróun.
Viðskiptarýnin er mikilvægur hluti af því starfi en þar eru viðskiptastefnur allra aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar teknar til skoðunar með reglubundnum hætti með það að markmiði að tryggja samræmi við reglur stofnunarinnar og stuðla að óheftum viðskiptum,“ segir þar.
Sem hluti af þessu ábyrgðarhlutverki verður Harald einnig í sérstakri þriggja manna valnefnd fyrir nýjan framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem valinn verður fljótlega til að taka við af Roberto Azevêdo frá Brasílíu, núverandi framkvæmdastjóra.