Haraldur hættur sem formaður Fjarskiptasjóðs

Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er hættur sem formaður Fjarskiptasjóðs. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, hefur tilkynnt Haraldi að forystu hans sé ekki lengur óskað og hefur Páll Jóhann Pálsson, fv. þingmaður Framsóknarflokksins, verið skipaður formaður sjóðsins.

Haraldur greinir frá þessu á fésbók í dag og ræðir þann árangur sem náðst hefur í netvæðingu landsins undanfarin ár.

„Það er mikilvægt að styðja við forsendur þess að til Íslands sé lögð ný ljósleiðaratenging við önnur lönd. Þær tengingar sem við höfum eru góðar og skilvirkar en eru farnar að eldast. 

En með nýrri tengingu, fleiri tengistöðum við Ísland skapast líka önnur og verðmæt tækifæri. Ekki aðeins að fjarskiptaöryggi okkar allra batni, heldur og að nútíma gagnaveraþjónusta geti fengið tryggara rekstraröryggi. Það er best gert með nýjum og afkastameiri tengingum og fleiri varaleiðum en nú eru,“ segir hann.

„Fjarskiptasjóður afgreiddi sem hluta af samningi, sínum til Farice, heimild til að nota hluta þess fjármagns, að gera botnrannsóknir fyrir legu á nýjum ljósleiðara til landsins. Með slíkum botnrannsóknum opnast ný tækifæri. Með þeim er getur verið rutt úr vegi hindrun fyrir fyrirtæki að ráðast í slíka fjárfestingu — að leggja nýjan streng til Íslands,“ segir Haraldur.

Hefði viljað ljúka verkinu

Hann segir að í ár hylli undir verklok á þremur landsvæðum, í verkefninu Ísland ljóstengt. Það þýði að mögulegt er nú að semja um framlög Fjarskiptasjóðs, ef rétt er á haldið, til að ljúka verkefnum á Vesturlandi, Norðvesturlandi og Eyþingsvæðinu.

„Þar ætti því á næstu tveimur til þremur árum 99.9% heimila og fyrirtækja að hafa kost á amk 100 mbs tengihraða. Þetta er langt umfram þær vonir sem ég gerði í upphafi átaksins. Það hefur gengið gríðarlega vel og á eftir, og er þegar farið að leggja grunn að einstökum tækifærum til sóknar og verðmætasköpunar.

Frá árinu 2016 hef ég fylgt Ísland ljóstengt verkefninu sem formaður Fjarskiptasjóðs.  Nú er krafta minna til forustu þar ekki lengur óskað.  

Ég nota því þessi tímamót til að þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að leiða þetta mikilvæga verkefni. Sem ég hef haft og hef brennandi áhuga og á og hef lagt mikið undir til að takist sem best,“ segir Haraldur og bendir á að síðasta embættisverk hans hafi verið að skrifa undir samning sem efli og bæti tengingar, raungeri Ísland ljóstengt 2.0.

„Nú situr Ísland á toppi í samanburði ríkja um útbreiðslu og notkun á nútímafjarskiptatengingum. Við höfum gjörbylt fjarskiptum í íslenskum sveitum. Ég sit eftir með góða reynslu, og reyndar óskir frá mörgum ríkjum um að koma að kynna hvernig Ísland tókst á við að gjörbreyta þessum innviðum. Leyni því ekki heldur að ég hefði viljað klára þetta metnaðarfulla verkefni. Eitthvað sem fyrir nokkrum árum var talið vonlaust – það er horft til okkar af miklum áhuga á að skilja hvernig þetta er hægt. Það fara aðrir í þann leiðangur. Þeim óska ég velfarnaðar,“ segir Haraldur Benediktsson.