Heiðar tekur sjálfur við sem forstjóri Sýnar

Heiðar Guðjónsson fjárfestir og forstjóri Sýnar.

Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Sýnar hf., og einn stærsti hluthafi fyrirtækisins, hefur ákveðið að segja sig úr stjórn félagsins og um leið hefur verið gengið frá ráðningu hans sem nýs forstjóra félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Hjörleifur Pálsson hefur tekið við stjórnarformennsku og Sigríður Vala Halldórsdóttir varastjórnarmaður tekið sæti í stjórn.

Hjörleifur Pálsson, nýr stjórnarformaður Sýnar.

Stefán Sigurðsson lét af störfum sem forstjóri Sýnar fyrr á árinu og vildi með því að eigin sögn taka ábyrgð á erfiðum rekstri og árangri sem væri undir væntingum eftir kaup Vodafone á sjónvarpshluta 365 fjölmiðlafyrirtækisins, þ.e. Stöð 2, Bylgjunni, Vísi og fleiri fjölmiðlum.

Heiðar hefur stýrt félaginu að undanförnu sem nokkurs konar starfandi stjórnarformaður og segir Hjörleifur Pálsson, nýr stjórnarformaður, félagsins að hann hafi í þeim störfum sýnt mikla röggsemi.

Hlutabréf í Sýn hafa lækkað töluvert í verði undanfarið. / keldan.is

„Það er mikill fengur af því að fá hann til þess að leiða daglegan rekstur félagsins, enda hefur hann yfirgripsmikla þekkingu á starfseminni. Við bjóðum hann því velkominn til starfa á nýjum vettvangi,“ segir hann.

Heiðar, sem hefur verið umsvifamikill fjárfestir hér á landi, m.a. í HS Orku, kveðst þakklátur fyrir það traust sem honum sé sýnt með ráðningunni.

„Framundan eru krefjandi verkefni, sem ég hlakka til að leysa af hendi í samstarfi við allt það framúrskarandi fólk sem starfar hjá Sýn hf,“ segir hann.