Helga heiðursvísindamaður Landspítala 2019

Helga Jónsdóttir.

Helga Jónsdóttir var útnefnd heiðursvísindamaður Landspítala 2019 á Vísindum í dag og fær 400 þúsund króna heiðursfé.

Helga er prófessor í hjúkrunarfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður hjúkrunar langveikra fullorðinna í samtengdri stöðu á Landspítala. Hún lauk doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum í Minnesota árið 1995.

Helga hefur einkum fengist við eigindlegar og megindlegar rannsóknir á reynslu, einkennum og líðan fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma, einkum lungna- og taugasjúkdóma og fjölskyldna þeirra, ásamt því að þróa og prófa hjúkrunarþjónustu byggða á samráði fyrir þessa einstaklinga. Rannsóknirnar eru unnar í samvinnu fjölda vísindamanna innanlands og erlendis og hafa birst ríflega 70 ritrýndar tímaritsgreinar byggðar á þessum og fleiri rannsóknum.

Þrír hjúkrunarfræðingar hafa lokið doktorsprófi undir leiðsögn Helgu og nokkrir í doktorsnámi. Hjúkrunarfræðingar sem lokið hafa meistaraprófi undir hennar leiðsögn eru á þriðja tug.

Rannsóknarverkefni í vinnslu:

  • Inntak og árangur samráðs til eflingar heilbrigðis einstaklinga með LLT og fjölskyldum þeirra. Styrkt af Rannsóknarsjóði H.Í., Vísindasjóði LSH og B-hluta Vísindasjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
  • Klínískt mat og meðferð einstaklinga með gaumstol og fjölskyldur þeirra. Samstarfsverkefni H.Í., LSH og sjúkrahúsa í Litháen og Danmörku.
  • Þróun og mat á ActivABLES tækjabúnaðinum fyrir einstaklinga með heilablóðfall. Styrkt af NordForsk.
  • Ákvörðunartaka um lífslokameðferð taugasjúklinga á sjúkradeild. Styrkt af Vísindasjóði LSH og Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur.