Helgi Hrafn með COVID-19 og kominn í einangrun

Helgi Hrafn Gunnarsson, fv þingmaður Pírata. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Viðbragðsteymi Alþingis hefur greint frá því að niðurstaða úr skimun hafi leitt í ljós að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, er smitaður af kórónuveirunni. Þeim sem hafa verið í samskiptum við þingmanninn undanfarna daga hefur verið greint frá stöðunni eftir því sem unnt er.

Fram kemur í tilkynningu að unnið sé að smitrakningu og verður gripið til frekari sóttvarnarráðstafana í húsnæði þingsins samkvæmt viðbragðsáætlun Alþingis. Smitið hefur ekki bein áhrif á þinghaldið þar eð fundum Alþingis var fyrr í mánuðinum frestað til 1. október.

„Nú flyt ég ykkur þær fréttir að ég hef greinst með COVID-19,“ segir Helgi Hrafn á fésbókarsíðu sinni: „Af þeirri örstuttu reynslu sem ég hef af þessum sjúkdómi er mér orðið ljóst að fólk verður hratt óttaslegið og óþreyjufullt eftir upplýsingum. Því vil ég minna á að þetta er ferli, og smitrakning tekur einhvern tíma. Greiningin kom í gærkvöldi og ég hef gert lítið annað en að tala við fólk, ýmist sérfræðinga eða nákomna, sinna smitrakningu og tilflutningi í einangrun.

Ef þið hittuð mig á mánudag eða þriðjudag og við umgengumst hvort annað í meira en 15 mínútur, og ekki hefur verið haft samband við ykkur frá smitrakningu nú þegar, getið þið haft samband við mig og ég svara eftir bestu getu. Ég hef haft samband við sum ykkar en ekki önnur og stýrist það af aðstæðum. Ykkur er frjálst að henda í mig spurningum ef þið hafið áhyggjur, en athugið að ég er ekki sjálfur endilega með öll svörin. Ég reyni mitt besta til að upplýsa fólk með áhyggjur eftir bestu vitund.

Hvað varðar þingstörf, þá bendi ég á að þingið hefur ekki verið starfandi síðan 4. september, og tekur ekki til starfa aftur fyrr en 1. október. Þannig að þótt COVID-19 smit sé alltaf óheppilegt, þá er tímasetningin gagnvart þingstörfum ekki sú versta upp á smitleiðir og þingstörf að gera. Að sjálfsögðu er þó farið í einu og öllu eftir tilmælum og ráðgjöf sóttvarnaryfirvalda þegar kemur að þinglokknum og starfsfólki hans, t.d. hvað varðar sóttkví. Þá er Alþingi að sjálfsögðu meðvitað um stöðuna og hefur gert viðeigandi ráðstafanir.“

Helgi Hrafn bætir við, að hvað hans eigin heilsu varði, sé hún ágæt enn sem komið er, en „auðvitað verðum við bara að sjá hvað setur. Ég fæ heilræði frá þeim sem þekkja best til. Endilega farið varlega. Það kom mér ekki minna á óvart að smitast en það kæmi þér að smitast núna. Við erum öll almannavarnir,“ segir hann.