Hrafnhildur Hagstofustjóri

Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa Hrafnhildi Arnkelsdóttur í embætti hagstofustjóra frá og með 1. nóvember nk. Embættið var auglýst laust til umsóknar 13. ágúst sl. og bárust alls 14 umsóknir en þrír drógu umsókn sína til baka.

Í samræmi við ákvæði laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, skipaði forsætisráðherra þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd til að leggja heildarmat á hæfni umsækjenda. Hæfnisnefndin mat þrjá umsækjendur mjög vel hæfa til að gegna embætti hagstofustjóra.

Að loknum viðtölum við þá þrjá umsækjendur sem hæfnisnefndin mat mjög vel hæfa og eftir heildarmat á gögnum málsins var það niðurstaða forsætisráðherra að Hrafnhildur Arnkelsdóttir væri hæfust til að gegna embætti hagstofustjóra.

Hrafnhildur er með Ph.Lic. gráðu í líftölfræði frá Gautaborgarháskóla, BSc gráðu í tölfræði og kerfisfræði frá Lundarháskóla og BSc gráðu í iðjuþálfun frá Vårdhögskolan í Gautaborg.

Hrafnhildur hefur starfað sem stjórnandi hjá Hagstofu Íslands frá árinu 2005, sem sviðsstjóri félagsmálasviðs frá árinu 2014 en áður sem sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs og deildarstjóri launa- og kjaramáladeildar. Þar áður var Hrafnhildur m.a. forstöðumaður kjararannsóknarnefndar í 8 ár.