Sigrún Sturludóttir, sem borin var til grafar í dag, var forystukona í Framsóknarflokknum í Reykjavík um áratugaskeið, virk í bindindishreyfingunni og kirkjuvörður um árabil í Bústaðakirkju.
Sigrún fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 18. apríl 1929. Hún lést 1. nóvember 2019. Hún var dóttir hjónanna Kristeyjar Hallbjörnsdóttur húsmóður og Sturlu Jónssonar oddvita og hreppstjóra á Suðureyri við Súgandafjörð.
Sigrún giftist 1949 Þórhalli Halldórssyni verkstjóra og sveitarstjóra, f. 21. október 1918, d. 23. apríl 2015. Foreldrar hans voru Steinunn Jónsdóttir húsmóðir og Halldór Jónsson bóndi á Arngerðareyri við Ísafjörð. Eiga þau dæturnar Ingu Láru, Sóleyju Höllu, Auði og Steinunni.
Sigrún og Þórhallur kynntust á Suðureyri og hófu þar búskap. Þar hófust líka afskipti Sigrúnar af félagsmálum, sem hún sinnti af elju alla tíð síðan. Hún sat í stjórn kvenfélagsins Ársólar og hélt uppi öflugu starfi í barnastúkunni. Eftir að þau hjón fluttu til Reykjavíkur vann hún ýmis störf og síðustu starfsárin var hún kirkjuvörður við Bústaðakirkju. Í Morgunblaðinu í dag er tilgreint að hún hafi m.a. setið í stjórn Kvenfélagasambands Íslands, var í orlofsnefnd húsmæðra í Reykjavík og sá um orlofsdvöl þeirra í mörg ár og tók þátt í starfi IOGT. Hún var virk í starfi Framsóknarflokksins.
Sigrún hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín að félagsmálum og árið 2006 var hún sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að félagsmálum.
Félagsvera af guðs náð
Sigrún Magnúsdóttir, fv. borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og ráðherra, segir í minningargrein í Morgunblaðinu í dag, að Sigrún hafi verið „fyrirmynd og kjölfesta“ framsóknarkvenna í áratugi. „Hún var félagsvera af guðs náð, sem nýtti það ekki sér til framdráttur heldur miðlaði hún og veitti ríkulega öðrum,“ bætir hún við.
„Það var stórt skref í baráttu fyrir hugsjónum Framsóknarflokksins varðandi jafnrétti og framgang kvenna þegar Landssamband framsóknarkvenna var stofnað árið 1981 í Reykjavík. Sigrún var valin formaður LFK á frægum fundi á Húsavík tveimur árum síðar. Hún hófst strax handa og var bæði sókndjörf og framsækin, enda fór skriða af stað og konur sóttu fram um land allt,“ segir Sigrún um nöfnu sína og bætir við að Sigrún hafi tekið að sér kosningastjórn í frægum borgarstjórnarkosningum 1986 og verið elsti frambjóðandinn fyrir síðastliðnar alþingiskosningar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, segir á sama vettvangi að framsóknarfólk kveðji nú sérstaka heiðurskonu, sem hafi verið dýrmæt og einstök fyrir Framsóknarflokkinn.
„Framsóknarflokkurinn hefur misst mikla baráttukonu sem ætíð var fylgin sér og hafði einstakan hæfileika til að ná til fólks og til að miðla málum,“ bætir hann við.
Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og menntamálaráðherra, segir að Sigrún hafi verið einn af klettunum í Framsóknarflokknum, bæði málefnastarfi flokksins og félagsstarfi.
„Sjálf man ég fyrst eftir henni í framsóknarvist, hlýrri, fallegri og hjartahreinni konu sem tók eftir smáfólkinu og gaf sér tíma til að sinna því. Allar götur síðan ríkti með okkur vinskapur og virðing mín fyrir henni var djúp. Raunar naut Sigrún virðingar alls síns samferðafólks fyrir óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Öll hennar vinna gekk út á að bæta samfélagið, ýmist í stjórnmálunum, fyrir heimabyggð eða á vettvangi kirkjunnar. Hún barðist ötullega fyrir jöfnum rétti kynjanna og við sem yngri erum eigum henni, og hennar kynslóð, mikið að þakka fyrir að ryðja brautina með skýrri sýn og hugsjón,“ bætir hún við.
Að leiðarlokum vill ritstjóri Viljans minnast Sigrúnar Sturludóttur með þakklæti og hlýju fyrir traustan vinskap og stuðning um árabil. Blessuð sé minning hennar.