Hvítasunnukirkjan kveður Vörð og Ester sem halda til Noregs

Hátíðleg stund var við samkomu í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu á sunnudag þegar söfnuðurinn kvaddi Vörð Leví Traustason og eiginkonu hans, Ester Karin Jacobsen, sem hyggja nú á búferlaflutninga til Noregs eftir 40 ára starf innan Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi.

Vörður Leví var um árabil forstöðumaður Fíladelfíu og framkvæmdastjóri Samhjálpar og hann var hrærður yfir þeim kveðjum og góðu óskum sem þeim hjónum voru færðar.

„Eftir samkomuna var þvílík veisla sem meðlimir kirkjunnar stóðu fyrir. Við vorum leyst út með stórum blómvendi og fallegum skildi (platta). Óskar Einarsson og hans lið í gospelkór Fíladelfíu valdi uppáhaldslögin okkar. Enduðum svo daginn á að predika á kvöldsamkomu Fíló+ en það eru 18 ára og eldri sem standa fyrir því starfi. Frábær lofgjörð og nærvera Guðs. Takk öll kæru vinir sem gerðu þennan dag eins eftirminnilegan og hægt var. Guð blessi ykkur öll,“ segir hann á fésbókinni.

Heiðursplattinn sem þeim hjónum var færður sem kveðjugjöf.