„Ég er spennt fyrir framtíðinni og að takast á við verkefnið ef ég fæ umboð. Það er aðallega tímabært að við förum í stefnumótunarvinnu, þetta er lítið félag en við höfum stækkað mikið undanfarin ár. Félagið er orðið stærra, virkara og stærri rekstur, og við þurfum að sjá hvort við erum ekki öll á sömu síðu,“ segir Inga Auðbjörg Straumland, í samtali við Viljann, en hún hefur boðið sig fram til formennsku í lífsskoðunarfélaginu Siðmennt.
Aukaaðalfundur Siðmenntar verður haldinn þann 24. apríl 2019, að Hallveigarstöðum. Á fundinum verður kosið til formanns, stjórnar félagsins og varastjórnar. Í framboði til aðalstjórnar eru: Auður Sturludóttir, Jens Ívar Jóhönnuson Albertsson, Kristinn Theodórsson, Margrét Pétursdóttir, Sigurður Hólm Gunnarsson, Sveinn Atli Gunnarsson og Tómas Kristjánsson. í framboði til varastjórnar eru Hope Knútsson, Mörður Árnason og Þorsteinn Kolbeinsson.
Inga Auðbjörg, sem hefur um tíma verið athafnastjóri hjá Siðmennt, segir að félagið hafi næstum tífaldast að stærð frá því árið 2013. Þá hafi félagsmenn verið um 300, en séu nú tæplega 3.000. „Félagið er samtök húmanista með húmanísk gildi og athafnir félagsins eru trúlausar, en þær henta fólki óháð trú. Ég hef t.d. gift fólk af öðrum trúarbrögðum,“ segir Inga Auðbjörg, en eiginmaður hennar er Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Vaxtarverkir uppruni deilna
Athygli vakti á dögunum að deilur sköpuðust um nýkjörna stjórn, og var ákveðið að halda skyldi aukaaðalfund til að endurnýja umboð stjórnar í framhaldinu. Eins og Viljinn skýrði frá talaði Sigurður Hólm Gunnarsson um „hallarbyltingu“, en hann hafði tekið við varaformennsku af Jóhanni Björnssyni sem sagði af sér formennsku sökum anna, í ágúst í fyrra.
Hann bauð sig fram í embætti formanns, en varð að lúta í lægra haldi fyrir skyndiframboði fyrrum formanns, Jóhanns Björnssonar, á aðalfundi.
„Það kom fram skyndiframboð á aðalfundinum, rétt fyrir kosningu, og það var greinilega búið að smala fólki til að kjósa þá einstaklinga. Þetta fór illa í félagsmenn, og þetta var mikið rætt, m.a. á Siðmenntarspjallinu á facebook. Niðurstaðan varð sú að kjörinn formaður Jóhann Björnsson, hætti og næstkjörinn formaður, Helga Jóhanna Úlfarsdóttir, hætti fljótlega líka en þriðji formaðurinn, Sævar Ari Finnbogason er nú starfandi. Hann ákvað að boða til aukaaðalfundar og láta endurnýja umboðið.“
Spurður út í orðróm og deilur sem varða fjármál félagsins og greiðslur til sín segir Sigurður Hólm:
„Ég hef séð um tækni- og tölvu- og vefmál félagsins og fengið greitt fyrir það frá í janúar í fyrra, áður en ég tók við formennsku. Það var sérstök launanefnd sett á fót, löngu áður en ég tók við formennskunni í ágúst, undir stjórn Jóhanns, sem ákvað þær. Niðurstaða þeirrar nefndar var samþykkt einróma af stjórninni.“
Sigurður Hólm segir greiðslurnar hafa numið um 140 þúsund krónum á mánuði. Hann segir að í framtíðinni verði kannski heppilegra að aðrir en stjórnarmenn sjái um launuð verkefni fyrir félagið. Fram til þessa hafi félagið verið lítið og fáir fengist til að sinna verkefnum, en það hafi stækkað mjög hratt undanfarið með tilheyrandi vaxtarverkjum.
„Auðvitað tekur maður það nærri sér þegar er vegið að mannorði manns og gefið í skyn að það sé eitthvað óeðlilegt í gangi. Ég er t.d. sá eini sem hefur farið í gegnum formlegt mat launanefndar þar sem tillögur hennar hafa verið samþykktar samhljóma af stjórninni.“