Ingiibjörg Pálmadóttir, fv. þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins er sjötug í dag.
Ingibjörg er fædd á Hvolsvelli 18. febrúar 1949. Foreldrar: Pálmi Eyjólfsson (fæddur 22. júlí 1920, dáinn 12. október 2005) sýslufulltrúi og kona hans Margrét Ísleifsdóttir (fædd 8. október 1924) tryggingafulltrúi. Systir Ísólfs Gylfa Pálmasonar alþingismanns.
Maki (7. maí 1972): Haraldur Sturlaugsson (fæddur 24. júlí 1949) útgerðarmaður. Foreldrar: Sturlaugur H. Böðvarsson og kona hans Rannveig Böðvarsson húsmóðir, dóttir Pálma Hannessonar alþingismanns, en kjördóttir Edvalds Torps. Synir: Sturlaugur (1973), Pálmi (1974), Ísólfur (1979), Haraldur (1989).
Hjúkrunarfræðipróf frá Hjúkrunarskóla Íslands 1970.
Hjúkrunarfræðingur við Sjúkrahús Akraness 1970–1988. Skipuð 23. apríl 1995 heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, lausn 28. maí 1999. Skipuð á ný sama dag heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Leyst frá ráðherrastörfum um stundarsakir vegna veikinda frá 23. janúar til 6. febrúar og 9.-26. febrúar 2001. Leyst frá ráðherrastörfum 14. apríl 2001, afsalaði sér þingmennsku sama dag.
Í bæjarstjórn Akraness 1982–1994, forseti bæjarstjórnar 1986–1988 og 1990–1991. Í bæjarráði Akraness 1984–1991. Í stjórn Skallagríms frá 1987. Í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra frá 1987. Í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga 1986–1990. Í stjórn framkvæmdanefndar atvinnumála á Akranesi frá 1991. Í Vestnorræna þingmannaráðinu 1994–1995.
Alþingismaður Vesturlands 1991–2001 (Framsóknarflokkur).
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 1995–2001.
Heilbrigðis- og trygginganefnd 1991–1995, félagsmálanefnd 1991–1994, sjávarútvegsnefnd 1994–1995.
Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 1994–1995.
Stendur hjarta mínu næst
Á fésbók í dag sendir Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir fv. ritari heilbrigðisráðherra, hjartnæma kveðju sem hér skal birt í heild sinni:
„Um tuttugu ára skeið gegndi ég starfi ritara ráðherra heilbrigðismála og var svo lánsöm að vinna með einstökum ráðherrum í heilbrigðisráðuneytinu á árabilinu 1988–2008, einkum Framsóknarráðherrum, að öðrum ólöstuðum.
Einn þessara ráðherra stendur hjarta mínu ævinlega næst, enda vann ég lengst með henni, eða um sex ára skeið. Hún treysti mér meðal annars fyrir fatakaupum, hún lét bílstjórann sinn eitt sinn sækja mig eldsnemma á laugardagsmorgni og aka mér á heimili sitt á Akranesi til þess að túlka á milli frönsku og íslensku þar sem hún tók á móti frönskum hjólreiðamönnum sem höfðu hjólað um landið í þágu langveikra barna, saman fórum við á aðventutónleika í Hallgrímskirkju og hlustuðum á Kristján Jóhannsson og Mótettukórinn;
„Inga mín, það þýðir ekkert að fara með Haraldi á tónleika, hann sofnar alltaf“ 🙂 og hún sendi mér ævinlega un grand bouquet de fleur á afmælisdögunum mínum. Henni fylgdi ævinlega þessi einstaka gleði sem gerði hvern dag betri, ekkert var svo flókið að ekki mætti finna lausn.
Hún heitir Ingibjörg Pálmadóttir, fv. ráðherra heilbrigðismála, hún er afmælisbarn dagsins og fyllir sjötíu ár í dag. Hún fær un grand bouquet de fleur frá mér síðar. Mér þykir undurvænt um hana og ég óska henni hjartanlega til hamingu með daginn með kæru þakklæti fyrir allt og allt.“