Íslendingar eiga efnilegasta kvikmyndatónskáld heims

Íslendingar eiga efnilegasta kvikmyndatónskáld heims, sagði í tísti bandarísks blaðamanns í nótt eftir að tónskáldið Hildur Guðnadóttir hreppti hin eftirsóttu Emmy-verðlaun fyrir tónlist sína í þáttaröðinni Chernobyl, sem framleidd er af HBO.

Um gríðarlega viðurkenningu er að ræða, en velgengni Hildar kemur ekki á óvart þar sem þáttaröðin hefur algjörlega slegið í gegn á heimsvísu og er að margra mati sú besta sem komið hefur út í sjónvarpi á þessu ári.

Fullyrðing blaðamannsins kemur ekki aðeins til vegna verðlaunaafhendingarinnar í gær, heldur einnig vegna þess að Hildur semur einnig tónlistina fyrir kvikmyndina Jókerinn með Joaquin Phoenix, en sú mynd er talin líklegasta Óskarsverðlaunamynd ársins 2019 og hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda.

Hvort tveggja kvikmyndin og tónlist Hildar unnu einmitt til verðlauna á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum.

Má þess vegna gera því skóna, að Hildur komi til álita í tilnefningar fyrir komandi Óskarsverðlaun og Golden Globe verðlaun í Hollywood.

Það að íslenskt tónskáld, aðeins 37 ára að aldri, semji tónlist fyrir eina stærstu þáttaröð og kvikmynd ársins, segir sína sögu um velgengni Hildar, sem er einnig þekkt fyrir söng sinn og sellóleik.

Vart þarf að taka fram, að tónskáld sem nýtur slíkrar velgengni mun geta valið úr úrvalsflokki verkefna á næstu árum.

Um tónlistina sem hún samdi fyrir Chernobyl, sagði hún nýlega í viðtali við Hollywood Reporter, að hún hefði hætt við að láta hljóðfæri leika aðalhlutverkið, en snúið sér þess í stað að umhverfinu þar sem kjarnorkuslysið varð. „Ég bjó til hljóðfærin úr hljóðunum sem ég fann á staðnum. Við eyddum miklum tíma í að taka upp hljóð á tilteknum stöðum, bresti og ískur. Uppáhaldshljóðfærið mitt var hurðin inn að vélasalnum sem bauð upp á heila sinfóníu af hljóðum,“ segir hún.