Jón Haukur yfir eldhúsum Landspítalans

Jón Haukur Baldvinsson veitingamaður hefur verið ráðinn deildarstjóri eldhúss og matsala Landspítala (ELMA) til næstu 5 ára.

Jón Haukur er með BA-gráðu í markaðsfræðum og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur langa reynslu í rekstri og þjónustu í tengslum við veitingaþjónustu, meðal annars hjá Icelandair, Jamie Oliver, Coca-Cola European Partners og Icelandic Glacial.

Jón Haukur er mágur Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, en systir hans Þóra Margrét er eiginkona Bjarna. Foreldrar hans eru Margrét Björnsdóttir og Baldvin Jónsson fv. auglýsingastjóri Morgunblaðsins og sá sem unnið hefur hvað mest í því að kynna íslenska lambakjötið og hérlend matvæli á alþjóðavettvangi.

Jón Haukur tók til starfa 1. júní 2020. Á vef Landspítalans segir að hjá ELMA sé rekið eitt stærsta framleiðslueldhús á Íslandi og 9 matsalir fyrir starfsfólk.

Framleiddar eru daglega um 5.000 máltíðir. Starfsmenn eru rúmlega 100 af 13 þjóðernum. Starf deildarstjóra eldhúss og matsala Landspítala er uppbyggingar- og breytingastjórnunarstarf þar sem horft er til framþróunar þjónustu til sjúklinga og starfsmanna, meðal annars í tengslum við byggingu nýs meðferðarkjarna í Landspítalaþorpinu við Hringbraut.

Til Landspítala leita um 120 þúsund Íslendingar árlega og þar vinna 6.000 starfsmenn og 2.000 nemendur í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta.