Jón Þór ráðinn aðalhagfræðingur sænska fjármálaeftirlitsins

Dr. Jón Þór Sturluson, forseti viðskipta­deild­ar Há­skól­ans í Reykja­vík, tekur í vor við stöðu aðalhagfræðings og framkvæmdastjóra efnahagsgreiningar hjá sænska fjármálaeftirlitinu (Finansinspektionen).

Jón Þór hefur fjölbreytta reynslu úr akademíu, stjórnsýslu og atvinnulífi, var um skeið dósent við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, í bankaráði Seðlabankans og aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, sem bar ábyrgð á eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækja, vátryggingarfélaga, lífeyrissjóða og starfsemi á verðbréfamarkaði. Þar bar hann meðal annars ábyrgð á varúðareftirliti með bönkum, þjóðhagsvarúð og viðbúnaði við áföllum. Þá var hann meðlimur í kerfisáhættunefnd.

Á alþjóðlegum vettvangi hefur Jón Þór setið í stjórn Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA), verið áheyrnarfulltrúi í Evrópska kerfisáhætturáðinu (ESRB), fulltrúi í ráðgjafaráði Fjármálastöðugleikaráðsins fyrir Evrópu (FSB-RCG Europe) og þátttakandi í ýmsum norrænum nefndum á sviði fjármálaeftirlits og fjármálastöðugleika.

„Aðdragandinn hefur verið nokkuð langur. Einkum vegna ríkra öryggiskrafna sem stjórnendur og lykilstarfsmenn þessarar stofnunar þurfa að uppfyllla. Þó það sé ágætlega þekkt í alþjóðlegu umhverfi fjármálaeftirlits og seðlabanka að leitast sé eftir utanaðkomandi aðilum í toppstöður þá þurfti að fá sérstaka blessun sænsku ríkisstjórnarinnar á þessum ráðahag, þar sem ekki var fyrir hendi heimild í sænskum lögum til að ráða erlendan ríkisborgara í þessa tilteknu stöðu. Sú heimild fékkst og þá tók viðbakgrunnsannsókn af hálfu Finansinspektionen (FI) og að lokum tók sænska öryggislögreglan (SÄPO) við keflinu og gerði sjálfstæða öryggiskoðun á mér, ættmennum mínum og öðrum mér tengdum. Allt þetta leiddi að þessari niðurstöðu að eitt heimili fjölskyldunnar verður í sænsku höfuðborginni,“ segir Jón Þór á fésbókinni, þar sem hann segir tíðindin.

„Mitt helsta viðfangsefni og ábyrgðarsvið í nýju starfi verður yfirumsjón með greiningum á fjármálastöðugleika og undirbúningur þjóðhagsvarúðaraðgerða, en FI er stjórnvaldið á því sviði í Svíþjóð. Ég verð einnig hluti af framkvæmdastjórn stofnunarinnar og ráðgjafi í málefnum sem varða efnahagsmál og fjármálamarkaði. Sviðið sem ég mun veita forstöðu starfar einnig með öðrum sviðum, s.s. við banka-, markaðs, og tryggingaeftirlit og kemur að framkvæmd álagsprófa og sinnir mikilvægum hluta af alþjóðlegu samstarfi stofnunarinnar.

Viðfangsefnin eru að mörgu leyti lík þeim sem ég sinnti hjá Fjármáleftirlitinu íslenska fyrir nokkrum árum en ég mun einnig takast á hendur ný verkefni sem verður hvoru tveggja, krefjandi og spennandi. Sænska hagkerfið er rúmlega 20 sinnum stærra en það íslenska og fjármálamarkaðurinn þar er mun alþjóðlegri og fjölbreyttari en hér. Þetta verður því mikil áskorun en um leið stórt tækifæri fyrir 53 ára hagfræðikennara frá Íslandi,“ bætir hann við.