Jörundur kominn til starfa hjá Sameinuðu þjóðunum

Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands og António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Jörundur Valtýsson, sendiherra, afhenti í gær António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Á fundinum, sem fór fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, voru málefni norðurslóða og loftslagsmál ofarlega á baugi, en síðar í mánuðinum fer fram leiðtogafundur um loftslagsmál á vettvangi stofnunarinnar. Dagskrá allsherjarþings SÞ, framfylgd heimsmarkmiðanna og mannréttindamál voru sömuleiðis til umræðu, þ.m.t. seta Íslands í mannréttaráði SÞ sem lýkur um áramótin.

Einnig voru ræddar áherslur Íslands hjá SÞ sem meðal annars lúta að málefnum hafsins, sjálfbærri auðlindanýtingu, landgræðslu, og jafnréttismálum. Þá fagna Sameinuðu þjóðirnar 75 ára afmæli á næsta ári og var tæpt á undirbúningi í tilefni tímamótanna.