Kamilla vill einbeita sér að bólusetningum

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis.

Eins og skýrt var frá í gær, hefur Guðrún Aspelund verið ráðin nýr sóttvarnalæknis í stað Þórólfs Guðnasonar sem lætur senn af embætti vegna aldurs.

Guðrún var eini umsækjandinn um þessa umtöluðu og valdamiklu stöðu, en sérstaka athygli vekur að Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sem oft hefur komið fram sem staðgengill sóttvarnalæknis í faraldrinum undanfarin ár, var ekki meðal umsækjenda.

Viljinn spurði Kamillu hvers vegna hún hefði sem staðgengill Þórólfs ekki sótt um?

„Guðrún hefur líka verið staðgengill sóttvarnalæknis en hefur hitt þannig á að hefur ekki þurft að vera mjög áberandi í því hlutverki,“ svarar hún.

„Ég hef verið verkefnarstjóri/yfirlæknir bólusetninga frá 2018 en lítið haft ráðrúm til að sinna þeim verkefnum vegna COVID og reyndar ýmissa annarra tímaþjófa, það er vel tímabært að taka ítarlega yfirferð á ýmsum atriðum þar og ég tel mig geta lagt meira af mörkum í því hlutverki næstu árin en sem sóttvarnalæknir,“ bætir hún við.