Rétt er að vekja athygli á því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra verður gestur Björns Inga Hrafnssonar, ritstjóra Viljans, í arinspjalli um þjóðmálin á Vinnustofu Kjarvals í Austurstrætinu á morgun, fimmtudag, kl. 17.
Síðast þegar stjórnmálin voru rædd á Kjarval, voru þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, gestir Björns Inga að viðstöddu fjölmenni.
Þar viðraði Kristrún m.a. hugmyndir sínar um breyttar áherslur Samfylkingarinnar í útlendingamálum í fyrsta sinn á opinberum vettvangi.
Af nægu er að taka af umræðuefnum nú; útspil ríkisstjórnarinnar í kjaramálum sem Katrín er sögð aðalhöfundur að, deilur milli stjórnarflokkanna, þróunin í skoðanakönnunum, vá fyrir dyrum í alþjóðamálum og forsetakosningar í sumar, svo fátt eitt sé nefnt.
Áhugafólk um þjóðmálin, sem vill vita hvað er að gerast í íslensku samfélagi, ætti því ekki að láta arinspjallið fram hjá sér fara.