Kolfinna Mist Austfjörð er Miss World Iceland 2019


Kolfinna Mist Austfjörð / Ljósmyndari : Ásta Kristjánsdóttir

Linda Pétursdóttir umboðsaðili Miss World á Íslandi hefur valið þátttakanda sem keppir fyrir Íslands hönd í Miss World, hana Kolfinnu Mist Austfjörð.

Keppnin verður haldin í London í desember þar sem þátttakendur frá 130 löndum keppa um hinn virta titil „Ungfrú Heimur.“ Er þetta í sextugusta og níunda skipti sem keppnin er haldin.

Kolfinna Mist er fædd og uppalin á Akureyri og er 23 ára gömul. Kolfinna er tónlistarkona, syngur og spilar á gítar.

Linda og Kolfinna eru þessa dagana á fullu í þeirri undirbúningsvinnu sem svona keppni kallar á og verður spennandi að sjá hvernig Kolfinnu gengur í keppninni. 

Opnunarhátíð Miss World verður haldin í London þar sem hver keppandi tekur þátt í röð hraðagreina sem tryggja sigurvegurum sæti í 30 efstu sætunum. Meðal keppnisgreina má nefna margmiðlun, íþróttir, hæfileikakeppni, módelkeppni, útsláttarkeppni og kynningu á góðgerðaverkefnum innan Beauty With A Purpose

Alþjóðlegu góðgerðarsamtökin Beauty With A Purpose eru að sögn Lindu gríðarlega mikilvægur partur af Miss World keppninni. Þessi alþjóðlegi vettvangur hvetji þúsundir ungra kvenna til dáða og efli þær til að nota hæfileika sína til að vekja athygli á og safna fé til hjálpar mannúðarmála sem hafa varanleg og áþreifanleg áhrif á fátæka, veika og aðra sem minna mega sín. Hafa samtökin safnað yfir einum milljarði punda og styrkt bágstödd börn um allan heim.

Fyrstu spor keppninnar voru stigin í London árið 1951 sem hluti af Þjóðarhátíð Bretlands. Julia Morley, eigandi og forstjóri Miss World segir að hátíðin í ár verði hin tilkomumesta.

Kolfinna Mist Austfjörð / Ljósmyndari : Ásta Kristjánsdóttir

Keppnin verður sýnd í yfir 150 löndum þar sem áhorfendur geta fylgst með því þegar ríkjandi ungfrú heimur, Vanessa Ponce de León, krýnir arftaka sinn. 

Ísland hefur átt góðu gengi að fagna í Miss World en þrjár konur hafa unnið keppnina fyrir Íslands hönd :

1985 – Hólmfríður Karlsdóttir

1988 – Linda Pétursdóttir

2005 – Unnur Birna Vilhjálmsdóttir


Hægt er að fylgjast betur með Kolfinnu Mist og keppninni á facebook síðu Miss World Iceland og á Instagram .

Einnig er hægt er að skrá sig á póstlista til að fylgjast með Miss World Iceland og ferðalagi hennar í Miss World keppninni í gegn um netfangið www.missworldiceland.is