Kominn af duglegu verkafólki sem kenndi honum allt um vinnusemi

Arnar Gauti Sverrisson er mörgum kunnugur sem bloggari, hönnuður, ráðgjafi, listrænn stjórnandi og er þessi listi alls ekki tæmandi.

Arnar Gauti ólst upp í Keflavík en er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1971. Honum og hans fjölskyldu var komið fyrir í Keflavík í gosinu en hann var þá um 2 ára gamall. Arnar Gauti flutti svo til Reykjavíkur um 17 ára aldur. Hann er kominn af duglegu verkafólki sem kenndi honum allt um vinnusemi og að sýna traust og kærleik, en fagurfræðilegur grunnur var enginn. 

,,Fljótlega fór ég ungur að hugsa um hvaða flottu hlutir voru í bíómyndum og benda mömmu á það í stað þess bara að horfa á einhverja mynd.  Ég var alltaf með svoldið skýr markmið en í dag sé ég að það var ástæða fyrir öllu í lífi mínu sem skiluðu mér á þann stað sem ég er í dag. Mér líður þó eins og ég eigi samt fullt eftir að gera og finnst ég ekki komin þangað strax’’.

Arnar Gauti hefur nú unnið í tískubransanum og hönnun í tæp 30 ár. Hann er sjálfmenntaður hönnuður út frá reynslu og titlar sig ekki sem arkitekt, heldur á gott samstaf með arkitektum þegar hann þarf á þeirra sérkunnáttu að halda. Hann hefur komið að mörgum verkefnum síðustu ár og má þar telja helst hönnunarverkefni bæði fyrir nýbyggingar fasteignafélaga, þar sem hann kemur að viðmótshönnun nýrra íbúða og setur þær upp á þann hátt að fólk geti flutt beint inn með húsgögnum og öllu tiltæku. Sinnir hann einnig verkefnum tengdum ráðgjöf fyrir heimili og vinnustaði. Vinnur hann svo með Vista Expo sem listrænn stjórnandi fyrir heimilissýninguna Lifandi Heimili sem var haldin í Laugardagshöllinni í maí.

Lúxusíbúð við Skólavörðustíg

,,Það sem stendur klárlega uppúr á síðustu 2 árum er hönnun á veitingastaðnum Library bistro / bar fyrir Radisson park inn í Reykjanesbæ. Það verkefni tókst mjög vel og viðtökur voru stórfenglegar. Er ég  endalaust þakklátur fyrir traustið sem mér var gefið við hönnunina. Það sem snýr mest að mér núna er að vinna að endurhönnun á consepti á vinsælum veitingastað, það verkefni klárast í ágúst þegar hann verður þannig séð enduropnaður og hlakka ég til að vera partur af því. Einnig er ég að vinna consept vinnu fyrir lífstílsbloggið mitt http://sirarnargauti.is/ en þar er að fara af stað þróun á mörgum skemmtilegum hlutum’’. 

Library Bistro veitingastaðurinn sem Arnar Gauti hannaði 
Natalía París og Kiljan Gauti að borða á Library Bistro

Hvað er planið Arnari Gauta það sem eftir er af sumri ?

 „Sumarið hjá mér og börnum mínum París og Kiljan Gauta fer mest í að njóta samverunnar og landsins, nýlega bættist við í hópin yndislega ástin mín Berglind Sif og strákarnir hennar Nökkvi Blær og Lúkas Breki og erum við svoldið að finna okkur öll saman og eigum við örugglega eftir að taka nokkrar útilegur í sumar, en eina sem er alltaf fastur liður hjá okkur er að fara á Sæludaga í Vatnaskóg um Verslunarmannahelgina og eru núna Berglind Sif og synir hennar að koma með okkur í fyrsta skipti. Það er hvergi betri staður til að vera á með ungana okkar en þar . Svo á Natalía París alltaf inni hjá pabba sínum ferð til Parísar í fyrsta skiptið og er ég að vinna í því að finna dagsetningu fyrir hana í það ferðalag en það verður líklega í enda sumars’’.

Arnar Gauti og Berglind Sif

Íslendingar eru allskonar, sem gerir það að verkum að þjóðin er ekki síður skapandi en þenkjandi. Fólk sem hefur fæðst hér og flutt hingað setur sitt skemmtilega mark á samfélagið sem færist síðan stundum með þeim út í heim. Eins og oft hefur verið sagt, ætli það sé ekki eitthvað í vatninu. Viljinn náði tali af nokkrum einstaklingum til þess að sjá hvað þeir eru að gera í lífinu og hvað planið hjá þeim sé í sumar.  – María Rún Vilhelmsdóttir tók saman.