Hér fara á eftir minningarorð forseta Alþingis, Birgis Ármannssonar, við upphaf þingfundar í dag, um Bjarna Guðnason, fyrrverandi alþingismann og prófessor, sem lést föstudaginn 27. október síðastliðinn, 95 ára að aldri.
Bjarni var fæddur í Reykjavík 3. september 1928, sonur hjónanna dr. Guðna Jónssonar prófessors og Jónínu M. Pálsdóttur húsmóður. Að loknu stúdentsprófi var hann við enskunám í Lundúnum í eitt ár áður en hann hóf nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Bjarni varði doktorsritgerð í íslenskum fræðum við Háskólann árið 1963 og að frátöldum þeim árum sem hann sat hér á Alþingi var starfsferill hans á sviði íslenskra fræða, einkum bókmenntasögu fyrri alda.
Bjarni sinnti kennslu á öllum skólastigum á starfsævi sinni, langtum lengst sem prófessor við Háskóla Íslands. Um nokkurra ára skeið var hann sendikennari í íslenskri tungu og bókmenntum við Uppsalaháskóla. Eftir hann liggja rannsóknir á miðaldabókmenntum og sagnaritum, fræðilegar útgáfur miðaldarita og skáldsagan Sólstafir.
Haustið 1969 reis úr umróti á vinstri væng íslenskra stjórnmála nýr flokkur, Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Bjarni Guðnason varð varaformaður hins nýja flokks og í hópi fimm þingmanna hans eftir kosningarnar í júní 1971.
Brátt kom í ljós að Bjarni átti ekki samleið með flokki sínum og nýrri ríkisstjórn vinstri flokka, sem Samtök frjálslyndra og vinstri manna átti aðild að og varð ágreiningur um efnahagsmál til þess að Bjarni sagði sig úr Samtökunum í desember 1972 og stofnaði Frjálslynda flokkinn sem aðeins var við lýði skamma hríð.
Hann gekk síðar í Alþýðuflokkinn og sat sem varaþingmaður hans á þremur þingum. Bjarni átti alls sæti á sex löggjafarþingum.
Bjarni Guðnason var afreksmaður í íþróttum á yngri árum, lék m.a. með landsliðum Íslands í knattspyrnu og handknattleik. Oft gustaði um Bjarna en í hópi þingmanna fékk hann orð fyrir glaðlyndi sitt, góðvild og réttsýni í þingstörfum.