Jakob Frímann Magnússon er löngu landsþekktur, enda hamhleypa til allra þeirra verka sem hann tekur sér fyrir hendur hverju sinni. Þótt hann hafi sem tónlistarmaður og athafnamaður afrekað meira en flestir gera á einni ævi hefur draumur um frama í stjórnmálum alltaf fylgt Stuðmanninum og nú hefur verið staðfest, sem slúðrað hefur verið um undanfarið, að hann er genginn til liðs við Flokk fólksins og mun skipa efsta sætið á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum.
„Ég hef hrifist af stefnumálum Flokks fólksins þar sem áhersla er lögð á að útrýma fátækt og óréttlæti á Íslandi. Það er sjálfsögð krafa að allir fái lifað mannsæmandi lífi í einu af auðugustu samfélögum heims. Hér á enginn að búa við bág kjör að afloknu ævistarfi, hlúa þarf betur að þeim sem hafa lent í áföllum eða búa við skerta orku og allir eiga að njóta jafnra tækifæra til menntunar og tómstundastarfs. Alvöru velferðarsamfélag byggist á heilbrigðu samhengi milli verðmætasköpunar og mannúðar,“ segir hann í tilkynningu sem Viljanum hefur borist frá Fólki fólksins.
Jakob Frímann er ekki eini athafnamaðurinn sem ætlar á þing að berjast fyrir rétti hinna verst stöddu. Annar oddviti Flokks fólksins, veitingamaðurinn Tómas Tómasson, sem kenndur er við Búlluna og hamborgara sína ár og síð, er annar af oddvitum flokksins í borginni að þessu sinni.
Jakob Frímann er stofnandi Stuðmanna og hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum. Hann var m.a. sendifulltrúi utanríkisþjónustunnar, sat á þingi sem varaþingmaður Samfylkingarinnar, gegndi stöðu framkvæmdastjóra miðborgarmála í áratug, var aðstoðarmaður Ólafs F. Magnússonar sem borgarstjóra, hann var formaður Félags tónskálda og textahöfunda um árabil, formaður, STEFS, Sambands tónskálda og textahöfunda, formaður SAMTÓNS, stjórnarformaður ÚTÓNS – Útflutningsskrifstofu tónlistarinnar og stofnaði umhverfissamtökin Græna herinn.
Hér er sumsé engin léttavigt á ferðinni, heldur alvöru forystumaður sem lengi hefur langað að láta til sín taka í pólitík. Kannski rætist nú loks hinn langþráði draumur. Víst er að Alþingi yrði ekki verra skipað á eftir…