„LGBT samfélagið fagnar ekki fjölbreytileika skoðana“

„Ég var Cruella Deville, í gulli og hvítu – í tilefni af 50 ára gullafmæli Stonewall-upprisunnar!“

Viljinn tók Eld Ísidór Deville tali í tilefni Hinsegin daga, en hann tók þátt í Brighton Pride á dögunum í dragi sem fyrrnefnd drottning. Ýmsir gætu kannast við Eld Ísidór, en hann hefur ekki legið á skoðunum sínum á internetinu. Hann hefur áhyggjur af því að á meðan fjölbreytileikanum sé fagnað á Hinsegin dögum, þá leyfist fjölbreyttar skoðanir ekki í hreyfingu LGBT fólks, og að stjórnmálahreyfingar hafi jafnvel tekið málstaðinn yfir í eigin þágu.

Hver er Eldur Ísidór?

„Miðaldra maður sem fæddist á Sauðárkróki árið 1979, en ólst upp í Keflavík og í Danmörku.“ Eldur hefur þó búið mestöll fullorðinsár sín í London og Brighton, auk þess að hafa búið í 5 ár í Noregi. Eldur er giftur ástinni sinni, manni frá Nýja-Sjálandi, síðan í vor, en þeir búa saman í Brighton ásamt hundunum sínum, Prins og Ryley. Eldur starfar sem sölustjóri hjá alþjóðlegu bandarísktu fyrirtæki og maðurinn hans vinnur fyrir hið opinbera. Á kvöldin syngur hann í Brighton Gay Men’s Chorus.

Hverjar eru stjórnmálaskoðanir þínar?

„Ég er framsækinn íhaldsmaður. Þegar ég var yngri var ég meiri vinstri maður og sósíaldemókrati, en það varð eins og með hvolpafituna, ég óx upp úr því,“ segir Eldur, sem kveðst íhaldsamur í ríkisfjármálum en styðja frelsi einstaklinganna til að ráða sínum persónulegu högum sjálfir.

Hvernig er að vera samkynhneigður íhaldsmaður?

„Erfitt, vegna þess að LGBT samfélagið fagnar ekki fjölbreytileika skoðana. Ef maður er ekki á „pólitískri línu“ LGBT hreyfingarinnar og „hlýðir ekki“ er maður útskúfaður,“ segir Eldur, sem þykir LGBT-hreyfingin hafa færst í áttina að róttæka vinstrinu – úr gleðinni og yfir rétthugsun og fórnarlambshlutverkið. „LGTB fólk, eins fjölbreyttur hópur fólks og það er, virðast ekki leyfa að hugmyndafræðilegur fjölbreytileiki og skoðanir fái að njóta sín.“

Eldur kveðst vera sammála Herði Torfasyni í gagnrýni hans á Samtökin 78, sem hann setti fram í viðtali við DV í fyrra. Samtökin séu í dag komin langt út fyrir það sem upphaflega var barist fyrir. „Ef ég byggi á Íslandi mundi ég ekki vilja vera í Samtökunum 78, mér finnst samtökin hafa tekið pólitíska afstöðu sem talar ekki fyrir mín sjónarmið og mér finnst ekki vera rými þar nema fyrir fólk sem fylgir ákveðinni pólitískri rétthugsun.“ Eldur kveðst hafa orðið var við áhuga á því stofna samtök fyrir samkynhneigða og tvíkynhneigða menn, en ákveðinn ótti sé við að taka af skarið vegna þess hver viðbrögðin gætu orðið.

Eru samkynhneigðir í meira mæli vinstra megin í pólitík?

Það held ég ekki. Ég held að hægri sinnuðu hommarnir haldi sig meira til hlés, þeir eru oft vel stæðir og vilja ekkert rugga bátnum mikið. Ég hef það á tilfinningunni að „framalesbíurnar“ séu líka þeim megin. Annað LGBT fólk, sem stólar meira á „kerfið“ séu ef til vill meira til vinstri í skoðunum.

Hver er þín skoðun á komu Mike Pence til Íslands?

„Mér finndist fáránlegt að mótmæla, vegna þess að að þarna er erlent embætti að heimsækja embætti á Íslandi. Ísland, sem þátttakandi í alþjóðasamfélaginu, þarf að eiga í þessum samskiptum. Embættin eiga að taka á móti hvort öðru með vinsemd og virðingu. Ísland hefur hagsmuni af því. Persónulegar skoðanir Mike Pence skipta þar engu máli, svipað og þegara Pia Kjærsgard kom í heimsókn í krafti embættis síns. Þó að fólk hafi einhverjar skoðanir á henni sem persónu, þá kemur það 75 ára lýðveldisafmæli Íslands og heimsókn forseta danska þingsins í tilefni af því ekkert við. Væri þetta alltaf svona, þá væru heldur fáir stjórnmálamenn og embættismenn sem gætu komið, án þess að þurfa að mæta mótmælum.“

Hefurðu tekið þátt í hinsegin dögum?

„Já, ég var með vagn árið 2008 og síðan labbaði ég með HIV-Ísland, sem tók þá þátt í fyrsta skipti, árið 2017. Það mundi ég gera aftur og aftur.“ Eldur vill að lokum gagnrýna þátttöku stjórnmálasamtaka í göngunni. „Viðburðurinn ætti að vera ópólitískur.“