„Tískuorð síðustu viku er hraðpróf. Því miður. Hvernig er ekki hægt að fíla hraðpróf, þau eru próf og hraðari en önnur próf. Jú, það þarf ennþá að stinga pinna upp í nefið en niðurstöðurnar koma á 15-30 mínútum í stað nokkurra klukkutíma. Vandamálið er hvað við gerum við niðurstöðurnar úr prófinu.“
Þetta skrifar Dr. Páll Melsted prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Íslenskri raðgreiningu. Hann hefur haft yfirumsjón með raðgreiningu veirunnar hjá þeim sem hafa sýkst með COVID-19 hér á landi.
Páll grípur til myndlíkingar og kveðst eiga bíl sem er ekki með bakkmyndavél. „Þegar ég bakka honum þá er ég ofurmeðvitaður um umhverfi mitt, nota þrjá spegla, rúmskynjun og varkárni í þessar örfáu sekúndur sem ég bakka. Í sumum Evrópulöndum er notuð önnur aðferð sem kallast að bakka eftir eyranu, hún virkar líka vel þegar gildismat þitt er á þá leið að stuðarinn á bílnum þínum og samborgara er ekki í forgangi. Ég ber ekki miklar tilfinningar til stuðarans míns en vesenið við viðgerð og mögulegur skaði sem ég gæti valdið með því að bakka eftir eyranu er það sem stoppar mig,“ segir hann.
Páll vitnar til viðtals við forstjóra Lyfju í fréttum helgarinnar sem kvartaði yfir því að leyfi fengist ekki til að selja hraðpróf í verslunum fyrirtækisins, þrátt fyrir að þau væru vottuð af þriðja aðila og sögð með 96% næmni. Hann segir að það, hvenær hraðprófið er tekið skipti öllu máli. „Flestar rannsóknir á gæðum þessara hraðprófa miða við að taka sýni úr einstaklingum með einkenni oft nokkrum dögum eftir að einkenni koma fram. Við þessar aðstæður er næmnin komin í 90% fyrir flest próf. Ef við breytum skilgreiningunni á hvað jákvæð niðurstaða þýðir og segjum að hraðprófið sé notað á hverjum degi sem einstaklingur hefur einkenni og það greinist amk einu sinni jákvætt þá er næmin nær 96%. Til þess að ná upp í 96% þurfti að nota prófið mörgum sinnum.
En hvað með einkennalausa? Sextíu prósent. Hjá sem eru einkennalausir og greinast jákvæðir með PCR prófi á þeim degi þá eru hraðprófin að finna 60% af þeim. Besta rannsóknin um þetta er frá Hollandi þar sem þeir sem voru útsettir fyrir smiti voru prófaðir fimm dögum síðar.
Þetta þýðir að við þurfum að hugsa um hvað jákvætt próf segir okkur (mjög líklega smitaður, farðu strax í PCR próf) og neikvætt próf. Ef við ætluðum að treysta á hraðpróf í stað sóttkvíar þá myndum við missa a.m.k. 40% þeirra sem raunverulega eru smitaðir. Ég segi a.m.k. því að talan 60% á við um hraðpróf eftir 5 daga. Við vitum að PCR próf eru oft neikvæð 1-2 dögum eftir að smit á sér stað, þess vegna er tvöföld skimun á landamærum fyrir óbólusetta með fimm daga millibili og prófað á leið úr sóttkví eftir 7 daga.“
Prófessorinn segir að hér eigi myndlíkingin við, því þegar hraðpróf sé loksins orðið nógu gott til að skila réttum niðurstöðum þá er það orðið of seint til að koma í veg fyrir smit, stuðarinn sé skollinn í. Tíminn frá því að fólk smitist og greinist jákvætt skipti öllu máli. Því lengur sem líður á milli, því erfiðari verði smitrakning.